Körfuboltaskólinn er að virka - Keppnisskór Helga Freys komnir upp á hillu.
Körfuknattleiksmaðurinn og þriggja stiga skyttan hjá Tindastól, Helgi Freyr Margeirsson, hefur lagt keppnisskóna á hilluna eins og fram hefur komið á Feyki.is. Keppnisferillinn spannar 22 ár, lengstum með meistaraflokki Tindastóls en hann var aðeins 14 ára gamall er hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik með Stólum tímabilið 1996-1997. Nú er komið að nýjum kafla í lífi Helga þar sem hann helgar sig útbreiðslu íþróttarinnar í Körfuboltaskóla Norðurlands vestra og hafði Feykir samband við kappann og forvitnaðist um sem þá vinnu.
Körfuboltadeild Tindastóls þakkaði Helga fyrir hans aðkomu að körfuboltanum hjá félaginu í færslu á Facebook-síðu í síðustu viku: „Helgi hefur verið lykil-leikmaður í uppgangi Tindastóls síðan hann kom aftur bæði innan vallar sem utan. Frábær liðsfélagi sem var til í að aðstoða liðið eða liðsfélaga á hvaða hátt sem þurfti. Það sýndi sig mjög vel til dæmis þegar ungt og óreynt lið Tindastóls fór alla leið í úrslit árið 2015. En eftir 22 ára feril sem meistaraflokksleikmaður eru skórnir komnir upp í hillu. Körfuknattleiksdeild Tindastóls vill koma miklum þökkum til Helga Freys og hans fjölskyldu fyrir hans framlag til Tindastóls í gegnum þessi 22 ár, en án heimamanna sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram fyrir klúbbinn er ekki hægt að ná þeim árangri sem Tindastólsliði hefur náð síðustu ár.“
Helgi svaraði fyrir sig á Facebooksíðu sinni: „Ég vil fá að nýta þetta tækifæri og segja takk fyrir mig Körfuknattleiksdeild Tindastóls og allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst og fengið að vinna og spila með í gegnum tíðina. Körfuboltinn hefur gefið mér svo margt, mótað persónu mína og opnað ótal dyr í gegnum tíðina. Í kringum körfuboltann hef ég eignast vini út um allan heim fyrir lífstíð og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Það er svo langt í frá sjálfgefið, og í raun ómetanlegt, að hafa haft tækifæri til að stunda íþróttina sem maður elskar á jafn háu getustigi og býðst hér á Sauðárkróki, höfuðstað Norðurlands. Það sem gerir þetta að möguleika eru skilningsríkir vinnuveitendur og stuðningsmenn félagsins út um allt land sem eru mjög virkir í að styðja Tindastól, hvort sem það er í stúkunni, með sjálfboðavinnu eða fjárhagslega. Í lokin vil ég þakka fjölskyldunni minni og sérstaklega elsku Margréti fyrir að standa ávallt við bakið á mér og gera þennan langa feril mögulegan. Nú er komið að næsta kafla, meiri tími með fjölskyldunni og svo útbreiðsla körfuboltans á Norðurlandi vestra í gegnum Körfuboltaskóli Norðurlands vestra.“
Þjálfarar góðar fyrirmyndir
Körfuboltaskólinn gengur út á námskeið fyrir krakka á Norðurlandi vestra og er góður vettvangur til að tengja krakkana á svæðinu saman félagslega og auka körfuboltaáhuga þeirra, segir á Faebooksíðu skólans en hann tók til starfa vorið 2018 með prufu námskeiðum sem gengu mjög vel og í framhaldinu var ákveðið að fara af stað af fullum krafti í september 2018.
„Námskeiðin hafa gengið mjög vel og alls staðar verið tekið vel á móti okkur. Það er frábært að upplifa hvað krökkunum finnst gaman að takast á við krefjandi æfingar í bland við allt fjörið sem fylgir körfuboltanum. Það hefur einnig verið mjög mikilvægt fyrir okkur að fá jákvæða umsögn foreldra sem hafa fylgst með æfingunum og eru mjög ánægð með það sem þau sjá. Þau segja líka að körfuboltar og körfuboltaspjöld séu komin á gjafalistana fyrir afmælis og jólagjafir,“ segir Helgi sem bendir á að námskeið skólans séu auglýst á Facebook-síðu Körfuboltaskólans en fólk þarf að líka við síðuna svo það fái tilkynningu.
Síðasta vetur stóð skólinn fyrir 19 námskeiðum; á Blönduósi, Skagaströnd og Hvammstanga. Námskeiðin eru oftast um helgar, en einnig eitthvað í skólafríum sem Helgi segir að hafi mælst mjög vel fyrir hjá foreldrum sem vita þá af börnunum sínum í heilbrigðu umhverfi með skólafélögum sínum. Hjá Körfuboltaskólanum hafa starfað átta þjálfarar en auk Helga Freys, sem er yfirþjálfari og ábyrgðarmaður verkefnisins, hafa komið inn sjö aðrir þjálfarar. Af þeim hafa verið þrír kvenkynsþjálfarar og fjórir karlkynsþjálfarar. Helgi segir að sérstaklega sé horft til þess að þjálfararnir séu góðar fyrirmyndir, innan sem utan vallar, og séu tilbúnir að gefa af sér.
Aðspurður um dæmigerðra æfingu segir Helgi: „Í upphafi hverrar æfingar vinnum við mikið með grunn- og tækniæfingar í gegnum knattrak, sendingar og skot. Þetta er svo fært inn í leiki og meiri hraða þegar líður á æfinguna, oft með einhvers konar keppnum. Flestar æfingar enda svo í spili. Allan tímann er verið að vinna með jákvæðni í samskiptum, jákvæða sjálfsmynd og aga.“
Svo vel hafa þessar æfingar og kynning á körfuboltanum mælst fyrir að verið er að kanna með reglulegar æfingar á Blönduósi og vonar Helgi að það geti orðið að veruleika. „Nú voru tvær æfingar í byrjun síðustu viku þar sem mættu 30 krakkar og er vitað um nokkra sem hefðu viljað mæta en áttu ekki heimagengt þannig að áhuginn er mikill.
Það kemur í ljós á næstu dögum hvort áframhald verði á því verkefni. Geislinn, íþróttafélagið á Hólmavík, hefur svo óskað eftir því að fá námskeið til sín sem verður núna fljótlega en við höfum ekki farið þangað áður þannig að hugmyndin um Körfuboltaskólann er að virka enda er körfuboltinn frábær íþrótt fyrir smærri bæjarfélög.“
Að lokum vill Helgi koma þökkum á framfæri fyrir þessi góðu viðbrögð sem námskeiðin eru að fá. „Ég vonast til þess að sjá sem flesta krakka á þeim í vetur og hvet foreldra, forráðamenn, afa og ömmur til að bjóða krökkunum á námskeið Körfuboltaskólans þegar hann er á svæðinu. Þá hefur verkefnið um reglulegar æfingar á Blönduósi nú verið samþykkt fram að áramótum. Það hafa farið fram fjórar æfingar, og á þær hafa mætt 31 einstaklingur þar af 9 stelpur og 22 strákar. Þetta er því að fara fram úr björtustu vonum og mikil stemmning fyrir körfunni á Blönduósi.“
Hægt erað kíkja á Facebooksíðu Körfuboltaskóla Norðurlands vestra HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.