Konungur og drottning fuglanna við Vesturós Héraðsvatna
Vorkoman er alltaf fagnaðarefni eftir langan vetur og sálin léttist eftir því sem fleiri farfuglar tínast til landsins. Kunnuglegir vinir kroppa í svörðinn og mófuglar syngja. Svo eru það flækingarnir sem einnig gleðja. Það er nú vafasamt að telja erni og súlur til flækingsfugla en í Skagafirði er afar sjaldgæft að sjá þessa íslensku glæsifugla sem oft hafa verið nefnd konungur fuglanna og drottning Atlantshafsins.
Það var sl. sunnudagsmorgun er hjónin Svavar Sigurðsson og Eva Óskarsdóttir voru í göngutúr með heimilishundinn við Vesturós Héraðsvatna að þau verða vör við óvenjulega stóran hrafn, Eins og Svavar lýsir þessu, sem reyndist svo vera haförn.
„Ég hélt fyrst að þetta væri krummi að koma en svo sé ég gæsirnar gargandi á eftir honum og þá áttaði ég mig á stærðarhlutföllunum að sennilega væri þetta ekki krummi. Svo kom hann nær og nær og ég fór að munda símann og reyna að taka mynd og þegar ég er að því dettur honum í hug, sennilega af forvitni, að taka annan hring og þá náði ég myndskeið af honum,“ segir Svavar er Feykir forvitnaðist um málið.
Eftir að hafa svifið yfir höfðum göngugarpanna tók konungurinn stefnuna fram með Vötnunum og gæsirnar á efir og mikið garg og gól heyrðist niður á Vötnunum í öðrum gæsum og segir Svavar greinilegt að örninn hafi ekki verið velkominn.
„Ég varð mjög hissa að sjá hann. Maður er ekki vanur því að sjá erni, hvað þá að þeir fljúgi í 20 – 30 metra hæð yfir manni. Alltaf spennandi að sjá nýja fugla.“
Öndvegissúla
Svavar er enginn aukvisi þegar kemur að útivist og fuglaveiðum, bæði á sjó og landi en hann telur sig einungis hafa séð örn einu sinni áður í Skagafirði. Það var úti með Reykjaströndinni en sá fugl var nokkuð langt í burtu og ekki greinilegur. En aðrir sjaldgæfir fuglar hefur Svavar orðið var við. Á seinasta ári sá hann súlur, og nú aftur Eva kona hans, niður við Héraðsvötn á svipuðum stað og örninn sýndi sig. Súlan er ekki algeng í Skagafirði en Svavar segir þær stundum þvælast við Drangey á vorin. „Þannig að það eru einhverjir fuglar að flækjast hér á vordögum,“ segir hann. Á Fuglavefnum má sjá að súlan er ekki útbreidd á Íslandi, aðeins fimm varpstöðvar og sumarútbreiðsla og segir þar að um helmingur íslenskra súlna verpi í Eldey, sem er eitt stærsta varp í heimi.
Hér fyrir neða má sjá þegar konungurinn tók einn aukahring yfir höfði Svavars áður en hann lét sig hverfa út í buskann.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.