Koltrefjaverkefnið kynnt umhverfisráðherra
Fulltrúar UB Koltrefja gengu á fund Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra í gær og kynntu henni stöðu mála varðandi undirbúning að byggingu koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki.
Snorri Styrkársson er fulltrúi Svf. Skagafjarðar í undirbúningshópnum. –Við fórum á fund umhverfisráðherra til að kynna henni stöðu mála varðandi verkefnið segir Snorri og segir jafnframt að ráðherra hafi verið jákvæður út í verkefnið. – Hér vegur þungt að koltrefjar eru vænlegt efni til að létta hluti s.s. í flugvélum og í bílum í framtíðinni sem þýðir minni eldsneytisþörf og það er verulega jákvætt innlegg í umræðuna um grænni orku og losun koltvísýrings í heiminum.
Snorri segir að margt hafi áunnist í undirbúningi koltrefjaframleiðslu á Sauðárkróki en þar hefur verið unnið að því að ná samstarfi við erlenda aðila vegna þekkingar og eignarhalds og hafa a.m.k. tveir aðilar verið þar í þeim viðræðum. Vegna efnahagsástands heimsins hefur hægst á vinnuferlinu og segir Snorri að nú sé lítið annað í stöðunni en að bíða heimskreppuna af sér og þegar henni lýkur mun verkefnið taka það flug sem vænst var í upphafi. -Við ætluðum að vera búnir að skila af okkur en á þessu ári er verið að kljást við um eða yfir 30% samdrátt í greininni í heiminum þannig að við bíðum aðeins, segir Snorri sem er þokkalega bjartsýnn á framhaldið. Hvort hægt sé að nefna einhver tímamörk á niðurstöðum undirbúningsnefndarinnar segir Snorri erfitt að segja til um það en það gæti vonandi orðið á næsta ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.