Koltrefjaverkefnið kynnt umhverfisráðherra

Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri KS, Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður Gasfélagsins og Guðmundur Guðlaugsson, sveitarstjóri Skagafjarðar, að viðstöddum Iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni og Þorsteini Inga Sigfússyni prófessor og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, undirrituðu samkomulagið á Sauðárkróki 17. apríl 2008.

Fulltrúar UB Koltrefja gengu á fund Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra í gær og kynntu henni stöðu mála varðandi undirbúning að  byggingu koltrefjaverksmiðju á Sauðárkróki.

 Snorri Styrkársson er fulltrúi Svf. Skagafjarðar í undirbúningshópnum. –Við fórum á fund umhverfisráðherra til að kynna henni stöðu mála varðandi verkefnið segir Snorri og segir jafnframt að ráðherra hafi verið jákvæður út í verkefnið. – Hér vegur þungt að koltrefjar eru vænlegt efni til að létta hluti s.s. í flugvélum og í  bílum í framtíðinni sem þýðir minni eldsneytisþörf og það er verulega jákvætt innlegg í umræðuna um grænni orku og losun koltvísýrings í heiminum.

Snorri Styrkársson

Snorri segir að margt hafi áunnist í undirbúningi koltrefjaframleiðslu á Sauðárkróki en þar hefur verið unnið að því að ná samstarfi við erlenda aðila vegna  þekkingar og eignarhalds og hafa a.m.k. tveir aðilar verið þar í þeim viðræðum. Vegna efnahagsástands heimsins hefur hægst á vinnuferlinu og segir Snorri að nú sé lítið annað í stöðunni en að bíða heimskreppuna af sér og þegar henni lýkur mun verkefnið taka það flug sem vænst var í upphafi. -Við ætluðum að vera búnir að skila af okkur en á þessu ári er verið að kljást við um eða yfir 30% samdrátt í greininni í heiminum þannig að við bíðum aðeins, segir Snorri sem er þokkalega bjartsýnn á framhaldið. Hvort hægt sé að nefna einhver tímamörk á niðurstöðum undirbúningsnefndarinnar segir Snorri erfitt að segja til um það en það gæti vonandi orðið á næsta ári.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir