Kjúklingabringur í hunangslegi borið fram með ekta Bernaisesósu

 -Nú þegar sól er farin að hækka á lofti og vorið að nálgast er tilvalið að auka matarlistina með suðrænni Sandgriu, segja þau Bjarney Björnsdóttir og Einar Valur Valgarðsson í Ási 2 í Hegranesi. Þau bjóða upp á Kjúklingabringur í aðalrétt og ótrúlega freistandi súkkulaðimousse tertu í eftirrétt.

  • 1 flaska rauðvín
  • 1/2 lítri Sprite
  • 1 dl vodki
  • skvetta af Countrau eða Grand Mariner
  • niðurskornar appelsínur og klaki.

Blandið öllu saman í skál eða könnu og berist fram strax.

 

Kjúklingabringur í hunangslegi.

6 kjúklingabringur.

Lögur:

  • 2 dl matarolía
  • 3-4 msk hunang
  • 3-4 msk esdragon
  • 2 msk Dijon sinnep.
  • salt og pipar.

Allt hrært saman og bringurnar látnar liggja í leginum í 2-3 tíma. Best er að elda þetta í ofni en ekki steikja á pönnu þar sem hunangið getur auðveldlega brennt bringurnar.

Borið fram með ekta Bernaisesósu:

  • 400 gr smjör
  • 4 stk eggjarauður
  • 2 msk bernaise essens
  • smá kjötkraft
  • 1 msk heitt vatn
  • salt og pipar.

Bræðið smjörið. Þeytið saman í heitri skál eggjarauðurnar, vatn, essens og estragon þar til það þykknar.Volgu smjörinu bætt út í. Bragðbætt með salti, pipar og kjötkrafti. Gott er að vera með soðnar kartöflur og setja þær á pönnu ásamt smjörlíki og krydda með dilli.

Steikt grænmeti.

  • Hvítkál
  • sveppir
  • rauðlaukur
  • gulrætur
  • spergilkál
  • blómkál.
  • Eða bara það sem til er í ísskápnum.

Steikja grænmetið á pönnu upp úr smjörlíki þar til það verður mjúkt. Kryddið með salti og pipar og smá skvettu af mapels sírópi rétt áður en grænmetið er tilbúið.

Eftirréttur.

Súkkulaðimousse terta.

Möndlubotnar.

  • 8 stk eggjahvítur
  • 100 gr sykur
  • 180 gr möndlumjöl (fínt malaðar möndlur)
  • 200 gr flórsykur
  • 50 gr hveiti.

Stífþeyta eggjahvítur og sykur. Flórsykur, hveiti og möndlumjölinu blandað saman við. Þetta eiga að vera þrír botnar bakaðir við 210-230°C í 8-10 mín.

Súkkulaðimousse.

  • 2 msk vatn
  • 100 gr sykur
  • 1 stk egg
  • 2 stk eggjarauður
  • 275 ml rjómi
  • 175 gr súkkulaði

Aðferð.

Þeytið rjómann. Hitið í potti sykur og vatn þar til það þykknar. Stífþeytið egg og eggjarauður, síðan er sykursírópinu hellt saman við eggjablönduna og þeytt þar til það kólnar. Næst skal bræða súkkulaðið og setja saman við eggjablönduna og síðan allt saman við þeytta rjómann. Setjið möndlubotn í springform og hellið helmingnum af súkkulaðimoussini yfir, þá botn númer 2 og restinni af súkkulaðimoussini yfir og síðan er settur botn númer 3 og þetta fryst yfir nótt.

Hjúpur yfir tertuna.

  • 200 gr súkkulaði
  • 100 gr rjómasúkkulaði
  • 2 dl rjómi
  • 1 msk sykur

Rjómi og sykur er hitað að suðu og hellt yfir brytjað súkkulaðið og hrært þar til góður glans er komin á súkkulaðið og þá sett yfir tertuna.

Verði ykkur að góðu.

(Áður birst í 12. tbl. Feykis 2010)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir