Kirkjan er salt og ljós þessa heims

Kosningar til Biskups Íslands hafa reynst undirritaðri gott tækifæri til þess að eiga einlægt samtal um stöðu Kirkjunnar og stefnu við jafnt leika og lærða um land allt. Í aðdraganda biskupskjörsins hef ég lagt áherslu á að við megum aldrei gleyma erindi Kirkjunnar sem er boðun trúarinnar í orði og verki. Það er grundvöllurinn og á honum er allt starf Kirkjunnar byggt. Kirkjan, með boðskap sinn, mætir fólki þar sem það er og í þeim aðstæðum sem það er, jafnt í gleði og sorg. Þannig er Kirkjan salt og ljós í þessum heimi og þannig vil ég sem kirkjunnar þjónn ganga í takt við hið lifaða líf. Koma inn í aðstæður með orð Guðs sem hjálpar, styrkir, huggar og nærir.

Skipulag þjónustunnar tryggir að allir landsmenn hafi aðgang að kirkjulegu starfi, hvort heldur sem er til sjávar eða sveita, fjalla og fjarða. Það er eitt af einkennum Þjóðkirkju. Grunneining Kirkjuskipunarinnar eru sóknirnar þar sem unnið er gott og uppbyggilegt starf, byggt á kristilegum grunni.  Margar sóknir glíma nú við fjárhagslegan vanda, sem bitnar á starfinu og þjónustunni.  Þann vanda þarf að leysa en fæstir söfnuðir hafa getað safnað til mögru áranna eða hafa nú þegar gengið á alla varasjóði. Unnið hefur verið að því að bæta fjárhag sóknanna með því að benda á þá miklu skerðingu sem orðið hefur á skilum sóknargjalda frá ríkinu til safnaðanna, sem annast innheimtu þeirra. Sú skerðing er langt umfram það sem almennt hefur verið í þjóðfélaginu og þarfnast endurskoðunar. Það er einnig brýnt að styðja alla þá sem vinna að heill kirkjunnar því ekki má ganga svo á orkutankinn að hann tæmist.

Þjóðkirkjan er trúfélag. Hún er stærsta fjöldahreyfing hér á landi. Hún hefur átt við tilvistarvanda að etja eins og svo margar stofnanir þjóðfélagsins undanfarin ár. Hún hefur þurft að takast á við vanda, sem á rætur að rekja til fortíðar og lagt sig fram um að bæta verkferla og ná sáttum. Við sem Kirkjunni unnum biðjum þess að nú getum við horft fram á við, horft til framtíðar. Að við höfum lært af biturri reynslu og náð jafnvægi sem dugar til áframhaldandi góðra verka.

Það er ekki á færi einnar manneskju að vinna að því verkefni sem Kirkjunni hefur verið falið. Það er sameiginlegt verkefni allra þeirra er taka þátt í kirkjulegu starfi. Með Guðs hjálp mun ég sem biskup Íslands leitast við að leiða Kirkjuna og okkur öll er henni fylgja eins og fjölskyldu mína og söfnuðina sem ég hef þjónað, með umhyggju fyrir einstaklingunum, heimilinu og samfélaginu að leiðarljósi. Rétt eins og á öllum heimilum eru verkefnin ófá sem fyrir liggja hverju sinni og þarf að ganga í og leysa, svo að búið blómstri til framtíðar.

Ég gef kost á mér til embættis biskups Íslands vegna þess að ég tel að víðtæk reynsla mín og þekking af störfum innan Kirkjunnar geti gagnast á komandi árum. Vil ég embættinu og Kirkjunni hið allra besta og vonast til að fá tækifæri til að láta krafta mína gagnast.

Ég bendi á heimasíðu mína, www.sragnes.is, til frekari upplýsinga um mig, áherslur mínar, kynningarmyndbönd og fleira.

Með bæn um blessun Guðs í lífi og starfi,
Agnes M. Sigurðardóttir
Sóknarprestur í Bolungarvík og
prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir