Kári hafði betur gegn Kormáki/Hvöt í hörkuleik
Lið Kormáks/Hvatar spilaði í Akraneshöllinni í gærkvöldi þar sem Kári beið þeirra. Heimamenn höfðu greinilega reiknað með erfiðum leik og lögðu allt í sölurnar til að vinna hann og bættu við sig fimm leikmönnum áður en leikmannaglugginn lokaði. Hvort það var það sem skóp sigurinn skal ósagt látið en Akurnesingarnir höfðu betur að þessu sinni og unnu 3-2 og jöfnuðu þar með lið Húnvetninga að stigum í 3. deildinni.
Gamla brínið, Andri Júlíusson, kom liði Kára yfir eftir aðeins sex mínútna leik og Nikulás Ísar Bjarkason bætti við öðru marki heimamanna á 34. mínútu og staðan 2-0 í hálfleik. Nikulás bætti við þriðja markinu á 53. mínútu og staða Húnvetninganna orðin erfið. Þeir gáfust þó ekki frekar en fyrr í sumar og Hilmar Þór Kárason minnkaði muninn sex mínútum síðar. Á 70. mínútu fékk þjálfari gestanna, Aco Pandurevic, að líta rauða spjaldið hjá dómaranum en það var síðan fimm mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma sem Hilmar minnkaði muninn í eitt mark. Á fimmtu mínútu uppbótartíma fékk Ante Marcic að líta gula spjaldið tvisvar í röð og fór því á undan hinum í sturtu.
Að sögn Sigurðar Bjarna, fyrirliða Kormáks/Hvatar var leikurinn frekar jafn. „Við kannski aðeins betri ef eitthvað var en svo sem sanngjart þegar maður lítur til baka. Maður getur ekki kennt dómaranum um þetta, við vorum sjálfum okkur verstir með að gefa þeim fyrstu tvö mörkin,“ sagði Sigurður sem var í raun alls ekki sáttur við dómgæsluna. Bæði Ingvi Rafn og Ingibergur, tveir af helstu markaskorurum Kormáks/Hvatar, eru meiddir um þessar mundir og spurði Feykir Sigga hvort þeir væru að braggast. „Ég á von á Ingva vonandi eitthvað í næsta leik á móti Sindra, ef ekki mætir hann í annað skiptið til Eyja þegar við spilum á móti KFS. Það er aðeins lengra í Inga kannski þrjár vikur til viðbótar.“
Lið Húnvetninga er eftir sem áður í fimmta sæti 3. deildar en liðið er með 20 stig líkt og Kári, Augnablik og KFS en er með hagstæðustu markatöluna. Laugardaginn 6. ágúst mætir lið Sindra á Blönduósvöll og í liði Hornfirðinga er einmitt Blönduósingurinn Kristinn Justiniano Snjólfsson þannig að það verður örugglega hart tekist á.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.