Kampselur heimsækir Sauðárkrók
Kampselskópur lá makindalega í sólinni við smábátarampinn í Sauðárkrókshöfn í dag og lét forvitna bæjarbúa ekki raska ró sinni þó þeir væru að mynda hann og skoða í návígi.
Samkvæmt Wikipedia alfræðiritinu er kampselur sjaldgæfur flækingur við strendur Íslands og er oftast einn á ferð. Yfirleitt eru það ung og ókynþroska dýr sem hingað koma og er algengastur fyrir norðan og austan land að vetrarlagi. Ingólfur Sveinsson bóndi á Lágmúla segir þó að hann þekki það vel að kampselur komi að ströndum landsins en hann sé algengari á vorin eða seinni part vetrar. Kampselur eða granselur eins og hann er líka kallaður hafi verið veiddur hér áður fyrr og sérstaklega eftirsóttur fyrir þá sem söltuðu spik en það var allt að þriggja tommu þykkt og var þá til helminga kjöt og spik. Ingólfur sagðist oft hafa borða kjöt af kampsel og þykir herramannsmatur.
Fullorðinn kampselur er 2 til 2,5 m á lengd og 200 og allt að 360 kg á þyngd og er þar með stærri en landselur en minni en fullvaxin útselur. Urturnar eru víða stærri en brimlarnir.
Sjá nánar um kampsel á Wikipedia.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.