Kæra skipulag í Skagafirði

Mbl.is segir frá því að sveitarstjórn Skagafjarðar geri ráð fyrir óbreyttri staðsetningu Þjóðvegar 1 við Varmahlíð og hafa Vegagerðin og Leið ehf. hafa kært þessa tillögu til Skipulagsstofnunar en stytting akleiða á Norðurlandi var rædd á fundi í Húnaveri í dag. Leið ehf. og Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar boðuðu til fundarins.

Haft er eftir stjórnarformanni Leiðar, Jónasi Guðmundssyni, að ólíklegt sé að lagðir verði hálendisvegir til að stytta leiðir milli landshluta. Göng undir Tröllaskaga séu einnig ólíklegur kostur. Nærtækara sé að fara svokallaða Svínavatnsleið í Austur-Húnavatnssýslu, en hún myndi stytta hringveginn um 12,6 til 14,6 km eftir leiðarvali. Einnig hafi lítillega verið skoðuð stytting í Skagafirði um 6,3 km. Samtals myndi þetta stytta vegalengdir um 20 km.

Með fundinum í dag vildi Leið ehf. fá menn til að tala saman um þessi mál og það voru því nokkur vonbrigði að enginn skyldi mæta á fundinn úr Skagafirði og Akrahreppi. Búið er að vinna aðalskipulag í Skagafirði sem gerir ráð fyrir að vegurinn við Varmahlíð verði ekki færður. Jónas segist hafa efasemdir um að vegurinn eigi að vera óbreyttur á þessum stað. Þarna sé bæði leiðinleg brekka og erfið gatnamót. Þess vegna hafi Leið kært skipulagið til Skipulagsstofnunar og það sama hafi Vegagerðin gert.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir