Jóhann Björn og félagar sigruðu í 4x100m í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsíþróttum
Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsíþróttum fór fram um helgina þar sem keppt var í fjórum deildum: Ofurdeildinni, 1., 2. og 3. deild. Íslendingar kepptu í 3. deild ásamt tólf öðrum liðum, og fór sú keppni fram í Skopje í Norður-Makedóniu 10.-11. ágúst. Keppt var í tuttugu greinum í karlaflokki og tuttugu greinum í kvennaflokki og voru tveir Skagfirðingar meðal keppenda.
Á Tindastóll.is kemur fram að hvert lið sendir einn keppenda í hverja grein og fást 13 stig fyrir fyrsta sætið, 12 stig fyrir annað sætið, og svo koll af kolli. Aðeins eitt lið kemst upp um deild og mun keppa í 2. deildinni eftir tvö ár. Árið 2017 féll Ísland niður um deild, og var stefnan sett á að komast strax upp aftur. Heimasíða keppninnar.
Íþrótta- og afreksnefnd FRÍ valdi lið Íslands, 17 konur og 17 karla og voru þeir Ísak Óli Traustason, sem keppti í 110m grindarhlaupi og langstökki, og Jóhann Björn Sigurbjörnsson, sem keppti í 100m hlaupi og 4x100m boðhlaupi, báðir liðsmenn UMSS. Sigurður Arnar Björnsson, verkefnastjóri landsliða FRÍ og aðalþjálfari frjálsíþróttadeildar Tindastóls, var í fylgdarteymi liðsins.
„Þegar lokið var keppni í helmingi greina í Evrópubikarkeppninni, 3. deild, var staða efstu liða þessi: 1. Serbía 230 stig, 2. Ísland 222 stig og 3. Bosnía-Herzegovína 206 stig. Tindstælingarnir í hópnum stóðu sig vel. Jóhann Björn Sigurbjörnsson var í sigursveit Íslands í 4x100m boðhlaupi, og varð í 4. sæti í 100m hlaupi. Ísak Óli Traustason varð í 6. sæti í langstökki,“ segir á Tindastóll.is.
„Það stefndi í gríðarlega baráttu Íslendinga og Serba um sigur í keppninni. Ísak Óli keppti í 110m grindahlaupi og varð í 4. sæti. Þrátt fyrir góða baráttu Íslendinganna tókst Serbum að halda forystunni fram í síðustu grein, 4x400m boðhlaup karla. Á endasprettinum þar hrinti serbneski hlauparinn keppinaut úr vegi, sem varð til þess að serbneska sveitin var dæmd úr leik, og fékk því ekkert stig fyrir hlaupið. Það varð til þess að íslenska liðið náði fram úr og sigraði, keppir því í 2. deild næst!
Lokastaðan: 1. Ísland 430 stig, 2. Serbía 427 stig, 3. Bosnía-Herzegovína 385 stig, 4. Moldavía 377 stig, 5. Svartfjallaland 283 stig. Íslendingarnir unnu samtals til 25 verðlauna í greinunum 40, 5 gull, 13 silfur og 7 brons.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.