Jaka Brodnik genginn til liðs við Stólana
Körfuknattleiksdeild Tindastóls er í óðaönn að undirbúa úrvalsdeildarlið Tindastóls fyrir komandi vetur í körfunni. Nú fyrr í vikunni var tilkynnt um ráðningu Baldurs Þórs Ragnarssonar sem þjálfara Tindastóls og nú í morgun sendi Kkd. Tindastóls frá sér fréttatilkynningu þar sem greint var frá því að Jaka Brodnik, Slóveninn sterki sem spilaði með Þór Þorlákshöfn síðastliðinn vetur, hafi einnig samið við Tindastól.
Brodnik ætti að koma með fína reynslu og nokkra vel þegna sentimetra inn í lið Tindastóls en kappinn er 2,03 metrar á hæð. Hann er 27 ára gamall og spilaði glimrandi með liði Þórs á síðasta tímabili. Hér að neðan má lesa fréttatilkynningu stjórnar Kkd. Tindastóls:
„Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur samið við slóvenska leikmanninn Jaka Brodnik fyrir komandi keppnistímabil í Dominosdeild karla. Jaka kemur til liðs við Tindastól frá Þór Þorlákshöfn og er þetta fyrsti leikmaðurinn sem Baldur Þór, nýráðinn þjálfari Tindastóls, fær til liðsins. Jaka Brodnik var með um 15 stig að meðlatali í leik og 6 fráköst á síðasta keppnistímabili. KKD Tindastóls býður Jaka Brodnik velkominn í hópinn og verður gaman að fylgjast með þessum fjölhæfa leikmanni í Síkinu í vetur.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.