Jafnt í Garðabænum eftir drama í uppbótartíma
Tindastólsmenn spiluðu á laugardaginn við lið KFG í Garðabænum í 12. umferð 3. deildar. Stólarnir þurftu að næla í sigur eftir tvo tapleiki í röð og lengi vel leit út fyrir að mark frá Luke Rae snemma leiks mundi duga en hasarinn var mikill í uppbótartíma og fór svo að leiknum lauk með 2-2 jafntefli sem gerði lítið fyrir liðin í baráttunni um sæti í 2. deild.
Þrír nýir leikmenn skokkuðu út á völinn í Tindastólsbúningnum; Hlynur Örn Hlöðversson sem steig í markið í fjarveru Atla Dags og síðan Skotinn Hamish Robert Thomson og Englendingurinn Sewa Bockarie Marah. Það tók markamaskínuna Luke Rae aðeins fjórar mínútur að koma Stólunum yfir en bæði lið fengu nokkur færi til að bæta við mörkum. Það var hinsvegar ekki fyrr en á 91. mínútu sem lið KFG jafnaði eftir hornspyrnu en þar var á ferðinni Jóhann Jóhannsson. Á 95. mínútu kom Luke Rae Stólunum yfir í annað sinn eftir að hafa fengið stungu inn fyrir vörn gestanna. Enn var þó tími fyrir eitt mark og því miður voru það heimamenn sem jöfnuðu leikinn í annað sinn á fimm mínútum, markið gerði Simon Filip Sperl og aftur kom markið eftir hornspyrnu. Leikmenn Tindastóls fengu tækifæri til að næla í stigin þrjú á loka andartökum leiksins en það hafðist ekki að þessu sinni.
Samkvæmt heimildum Feykis var jafnteflið sanngjarnt í heildina. Tindastóll situr eins og er í fimmta sæti 3. deildar með 17 stig en lið KFG er sæti ofar með 18 stig. Á toppnm eru lið Reynis Sandgerði og KV og er staða þeirra sterk, Sandgerðingar með 29 stig og KV 27. Það er stuttu á milli leikja núna en annað kvöld (þriðjudag) kemur lið Áltanes í heimsókn á Krókinn og nú verða Stólarnir að koma sér aftur á sigurbraut. Reglur varðandi áhorfendur á leikjum hafa verið rímkaðar þannig að stuðningsmenn ættu að geta mætt á völlinn að nýju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.