Já við þjóðkirkjuákvæði

Nýlega birtist grein á vef Feykis, eftir Bjarna Jónsson framkvæmdarstjóra, þar sem hann hvetur fólk til þess að segja nei við þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá, af því að hann ætlar að gera það. Þarna er hann að tala um þá skoðanakönnun sem framundan er, þar sem við munum kjósa um hugmyndir nokkurra höfuðborgarbúa að nýrri stjórnarskrá Íslendinga.

Í grein Bjarna er því miður að finna nokkrar rangfærslur sem byggðar eru á algengum misskilningi.

Bjarni vill ekki hafa í stjórnarskrá ákvæði sem tiltekur ákveðna trúarskoðun sem hina einu réttu. Þar er ég honum hjartanlega sammála, enda stendur það ekki til og er þetta fyrsta rangfærslan í grein hans. Ákvæði um þjóðkirkju má gjarnan fylgja ákvæði um rétt allra trú- og lífskoðunarfélaga.

Seinna er sagt að það gangi gegn almannahagsmunum að binda í stjórnarskrá tiltekna ríkistrú og að það gangi gegn trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.

Þarna er um aðra rangfærslu hans að ræða, því  það stendur alls ekki til að binda í stjórnarskrá tiltekna ríkistrú. Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstæð samkvæmt lögum frá 1997 og ræður sínum innri málum án atbeina ríkisins. Eina sem ríkið á að gera er að standa skil á endurgreiðslum vegna jarðasafnsins sem afhent var ríkinu og skila sóknargjöldunum sem ríkið tók að sér að innheimta fyrir öll trúfélög.

Þriðja rangfærsla Bjarna snýst að alheimskorti sem notað hefur verið til áróðurs gegn þjóðkirkjunni í netheimum og á að sýna hvar ríkiskirkjur eru. Þar sem hann virðist nota hugtakið ríkiskirkja um þjóðkirkju, ættu  Norðurlöndin öll að vera með á þessu korti. Þar er löng hefð fyrir þjóðkirkjum og Norðmenn ákváðu fyrr á þessu ári að hafa áfram ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá sinni. Þeir vilja þannig minna á að þjóðfélag þeirra byggir á kristnum sið og kristnum gildum, en um leið tryggir stjórnarskráin rétt annarra.

Því næst dragast íslamstrúarlönd inn í umræðuna, sennilega til að styðja við fyrrgreindar rangfærslur og loks er nefnt að löndin sem brutust undan oki kommúnismans á síðustu öld völdu að hafa ekki ríkistrú. Sannleikurinn er sá að það var fyrst og fremst fyrir tilstilli kirkjunnar og presta að því oki var hrundið t.d. í Rúmeníu og að kirkjan lifði í þessum löndum þó hún væri bönnuð.

Allt sem fram kemur í greininni um ríkistrú er afar villandi. Ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá fjallar hvorki um ríkistrú eða að hér eigi ekki að ríkja fullt trúfrelsi. Trúfrelsi og mannréttindi eru sennilega hvergi eins í hávegum höfð og á Norðurlöndum þar sem eru sterkar þjóðkirkjur.

Sérstaða þjóðkirkjunnar felst í því að fólkið, þjóðin leitar til hennar þegar á þarf að halda. (Ég man t.d. ekki eftir því að fólk í Skagafirði hafi leitað annað varðandi jarðarfarir.) Þjóðkirkjan er kirkja þjóðarinnar. Allt tal um ríkistrú, hugsanatengsl við íslam, brot á mannréttindum og bann við trúfrelsi er til þess að afvegaleiða umræðuna.

Ég hvet alla til þess að mæta á kjörstað á laugardaginn og segja já við ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Látum ekki lítinn, en háværan hóp ráða umræðu um þau mál sem skipta okkur mestu þegar allt kemur til alls.

Gísli Gunnarsson, Glaumbæ

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir