Íslenskur ríkisdalur (IRD)

Árið 1875 var komið á samnorrænu myntbandalagi  milli konungsríkja Danmörku, Noregs og Svíþjóðar. Tóku þessi ríki upp sameiginlega  krónu og var þetta myntbandalag í gangi fram að fyrri heimstyrjöld. Fyrir myntbreytinguna 1875 nefndist myntin í löndunum ríkisdalur. Á 18. öld voru í Danaveldi tvær gerðir ríkisdala. Annars vegar var um að ræða kúrantdalinn sem var pappírsmynt og  hins vegar var það spesíudalurinn sem var silfurmynt. Spesíur voru mikið notaðar á Íslandi.

Opinbert gengi spesíudala á Íslandi var oft hærra en kúrantdala og kaupmenn græddu oft vel á  því að skipta spesíunni fyrir kúrantdali vegna mismunar á gengi. Þannig  má segja að áhættulaus gjaldeyrisviðskipti (arbitrage)hafi verið stunduð á Íslandi í árhunduð af einhverju marki. Danski kóngurinn ákvað síðan að skipta um mynt árið 1816 og taka upp eina tegund rikisdals. Það má líta svo á, að á Íslandi hafi gjaldmiðils-viðskeytið dalur verið notaður mun lengur en gjaldmiðils-viðskeytið króna. En króna er ættað frá orðinu kóróna(crown) s.b. höfuðfat kónga og drottninga, ef til vill til að minna á hver réði ríkjum í viðkomandi landi og seðlar og mynt skreytt myndum af þjóðhöfðingjanum.

Gjaldmiðils-viðskeytið dollar(dalur) má rekja til 1520, þegar Hieronymus Schlick, tékkneskur greifi frá Bóhemíu byrjaði að slá silfur mynt sem kölluð var Joachimsthaler í höfuðið á Joachimstal (Jóakimsdalur) í Tékklandi. Í Jóakimsdal var að finna ríkar silfurnámur. Nafn myntarinnar var síðan stytt í taler. Þessi silfur dalur var mikið notaður í viðskiptum í Evrópu. Breiddist því notkun á orðinu dalur út og í kjölfarið tóku mörg ríki upp gjaldmiðils-viðskeytið dalur.

Fjölmörg ríki veraldar nota dal(dollar) sem gjaldmiðil. Dollarinn er notaður sem sjálfstæður gjaldmiðill, fljótandi eða festur gagnavart gengi annarra gjaldmiðla. Mörg dæmi eru um gjaldmiðla festa við Bandaríkjadollar(USD). Oft á tíðum er dollarinn einnig tengdur  myntkörfum. USD er notaður í um 85% af allri heimsverslun og flestöll hrávara gengur kaupum og sölum í dollurum t.d. olía, ál, gull, hveiti, sykur o.s.frv. USD er einnig kjölfesta í gjaldeyrisforða flestra ríkja heims, einnig stórra ríkja t.d. eins og í Kína, Japan og Rússlandi. Meira en 30 sjálfstæð ríki  nota gjaldmiðils-viðskeytið dollar fyrir utan Bandaríkin en stærst þeirra eru Kanada, Ástralía, Tævan, Hong Kong og Singapúr. Um 20 önnur ríki til viðbótar taka við USD í viðskiptum innan landamæra sinna til jafnfætis við eigin gjaldmiðil m.ö.o. þú þarft ekki að skipta yfir í gjaldmiðil sama lands.

Mikið hefur verið rætt undanfarið um íslensku krónuna og stjórnmálamenn hafa verið að kenna krónunni um hvernig komið er fyrir þjóðinni og helst vilja menn taka upp evru en það er ekki hægt næstu 20 árin vegna Maastricht-skilyrðanna. Ég er ekki sammála þessum úrtölumönnum og getum við frekar þakkað krónunni að það fór ekki verr. Stjórn peningamála eru í höndum stjórnmálamanna og Seðlabanka og þess vegna er mikilvægt að menn tali varlega um krónuna, því hún er eingöngu hagtæki sem við notum í viðskiptum.  Ekki er þar með sagt, að það séu ekki til betri hugmyndir um gjaldmiðils fyrirkomulag á Íslandi

Hægt væri að taka upp “Íslenskan Ríkisdal”(IRD) í staðinn fyrir íslensku krónuna(ISK). IRD yrði beintengdur við dollar og væri  1.00 IRD = 1.00 USD. Dollara táknið “$” gæti skreytt á IRD seðlana án nokkurra vandkvæða. Þetta hefur gefist  mjög vel og hefur verið við lýði t.d. á Bermuda frá 1970. Einnig  hefur svipað fyrirkomulag  verið frá 1935 á Barbados en þar er annað skiptihlutfall. Gjaldeyristekjur íslensku þjóðarinnar eru mikið til í USD og einnig er meirihluti skulda þjóðarbúsins og stór fyrirtækja  í USD. Þessi breyting myndi hjálpa þeim fyrirtækjum sem hafa árskýrslur sínar í dollurum og þeim fyrirtækjum sem flytja út vörur og hugbúnað í dollurum. Allar áætlanagerðir verða auðveldari og auskiljanlegri. Auðveldara  yrði fyrir útlendinga að skilja verðin á Íslandi og þá sérstaklega Bandaríkjamenn ef við höfum sömu gjaldmiðils einingu og í USD. Einnig mætti leggja rök að því að ferðamönnum frá Evrópu fyndist að þeir væru að fá meira fyrir evruna sína.

Það er ekkert að því að skoða þessa hugmynd gaumgæfilega. Hér yrði rekinn lágvaxtastefna en þó ekki með verðbólguviðmið sem áttavita. Þessi gjaldmiðils breyting gæti einnig verið notuð sem tæki til þess að ná til baka aflandskrónum útrásarvíkinga og annarra sem komið hafa krónum fyrir í skattaskjólum. Þetta mundi auka skatttekjur ef menn geta ekki gert fyllilega grein fyrir krónu eignarhaldinu. Þyrftu menn að sanna hvernig  krónunum var aflað til að fá skipt í nýja íslenska ríkisdalinn, annars er sú gamla glötuð.

Guðmundur Franklín Jónsson

Viðskiptafræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir