Íslendingalið í Stryn í Noregi í handbolta

Á vesturströnd Noregs er lítill bær sem heitir Stryn en þar búa nokkrir Íslendingar og gera það gott í handboltanum. Davíð Sigurðsson í léttu spjalli.

Þjálfari og markmaður liðsins Davíð Sigurðsson er Skagfirðingur í húð og hár, sonur Sigurðar Þorvaldssonar frá Þrastarstöðum sem kallaður var Siggi í Spörtu og Hallfríðar eða Haddýar Friðriksdóttur.

Davíð tók við sem þjálfari Stryn herrelag í september á síðasta ári en það leikur í 4. deild í norska handboltanum. Vel hefur gengið hjá liðinu því allir leikir hafa unnist hingað til og þá yfirleitt með 30 stiga mun. Síðasti leikur vannst 55-15 sem verður að teljast vera algjört burst. Þó tveir leikir séu eftir hjá strákunum  hafa þeir þegar tryggt sér sæti í 3. deild að ári.

-Það hefur ekki verið mikill áhugi á handbolta hingað til. Allt hefur snúist um fotboltann, þar sem Jóhann bróðir minn hefur bæði spilað og verið þjalfari síðastliðin ár, segir Davíð. Mikil ferðalög fylgja boltanum eins og allir þekkja sem staðið hafa í slíku og segir Davíð þó eingöngu vera ferðast innan fylkisins Sogn og Fjordane. -Aðallega er ferðast til Bergen en það tekur milli 5 og 6 tíma að keyra þangað.

Í liðinu spila fleiri Íslendingar en þeir komu í fyrra til að spila fótbolta með liðinu í Stryn og eru þeir allir frá Akureyri. Þetta eru þeir Pétur Kristjánsson, Kristján Sigurólason, Gunnar Líndal Sigurðsson og Örn Kató Hauksson. Og allir rosalega góðir leikmenn segir Davíð.

-Mér þykir mjög vænt um Skagafjörðinn og ég á margar yndislegar minningar þaðan . Í sumar komum við öll í heimsókn og erum farin að hlakka mikið til, segir Davíð sem fær góðar kveðjur úr Firðinum fagra sem væntanlega mun taka á móti honum með sól og heiðríkju á sumri komanda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir