Indverskur smjörkjúklingur og indverskur kartöflurétti ásamt naan-brauði

Matgæðingarnir Lilja og Gísli. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Lilja og Gísli. Mynd úr einkasafni.

„Við hjónin höfum alltaf verið hrifin af austurlenskum mat og ekki minnkaði sá áhugi eftir brúðkaupsferðina okkar en þar heimsóttum við fjögur ólík og bragðmikil Asíulönd,“ segja  Skagfirðingurinn Lilja Ingimundardóttir og eiginmaður hennar, Gísli Kristján Gunnsteinsson sem voru matgæðingar vikunnar í 39. tölublaði ársins 2015.

„Eftir ferðina fór hinn nýbakaði eiginmaður að safna að sér hinum ýmsu jurtum, kryddi og krukkum og eru reglulega haldin austurlensk matarkvöld á heimilinu með vinum og ættingjum. Við viljum deila hér nokkrum indverskum réttum sem eru alltaf vinsælir. Þeir eru nokkuð mildir og ekki flóknir í framkvæmd.“ 

Aðalréttur
Indverskur smjörkjúklingur -(Murgh makhani) 

1 kg af kjúklingabringum (skornar í munnbitastærð)
2 msk. olía til steikingar
50 g smjör
2 tsk. garam masala kryddblanda
2 tsk. paprikukrydd
2 tsk. kóríander krydd
1 msk. ferskt engifer (rifið eða fínt saxað)
2 hvítlauksrif (rifin eða fínt söxuð)
½ tsk. chilli duft
1 kanilstöng 
6 kardimommufræ, létt marinn í morteli
1 dós (400 g) maukaðir tómatar (gott að setja heila tómata úr dós í matvinnsluvél)
1 msk. sykur
4 msk. hreint jógúrt
½ bolli rjómi (120 ml)
1 msk. sítrónusafi

Aðferð:
Þessi réttur er þekktastur undir nafninu „Indian Butter Chicken.“ Hann er klassískur og vinsæll um allan heim. Hann er líka sá vinsælasti á heimilinu okkar og þá sérstaklega meðal barnanna. Hann er borinn fram með hrísgrjónum og naan-brauði.
Hitið vel stóra pönnu og bætið við 1 msk. af olíu. Steikja helminginn af kjúklingabitunum í u.þ.b. 4 mín. eða þar til hann hefur fengið á sig jafnan lit. Fjarlægið af pönnunni. 1 msk af olíu sett á pönnuna og endurtekið með hinn helminginn af kjúklingabitunum. Ef allur kjúklingurinn er settur á pönnuna í einu er hætta á að bitarnir fari að sjóða. Kjúklingurinn er settur til hliðar í skál á meðan sósan er undirbúin. Stillið helluna á lágan hita og setjið smjörið út á pönnuna. Þegar smjörið er bráðið á að bæta öllu kryddinu út á (líka hvítlauk, engiferi og kanilstönginni en ekki sykrinum), hræra vel saman og leyfa þessu að malla í u.þ.b. eina mín. eða þangað til það fer að anga vel af kryddlykt. Bætið kjúklingabitunum út í kryddblönduna og veltið þeim vel upp úr þangað til þeir eru vel þaktir af smjörblöndunni. Þá má bæta tómötum og sykri á pönnuna og hræra vel saman. Þetta má allt malla á meðalhita í u.þ.b. 15 mín. Hrærið einstaka sinnum í. Að lokum er jógúrt, rjóma og sítrónusafa bætt við. Allt hært saman og látið malla í um 5 mín. eða þangað til sósan fer að þykkjast aðeins.

 

Aðalréttur II
Indverskur kartöfluréttur  (Aloo Phujia) 

1 laukur, saxaður
60 ml olía
400–500 g kartöflur, afhýddar og skornar í bita
1 tsk. salt
½ tsk. cayenne pipar
½ tsk. túrmerik
¼ tsk. broddkúmen (cumin)
2 tómatar, saxaðir

Aðferð:
Þessi kartöfluréttur getur vel staðið einn og sér með góðu salati en er einnig góður sem hliðarréttur með öðrum kjötréttum.
Hitið olíuna á pönnu og léttbrúnið laukinn. Hrærið öllu kryddinu saman við laukinn og olíuna. Kartöflubitunum bætt í og látið malla í um 10 mín. Munið að hræra reglulega. Tómötunum bætt við. Lokið sett á pönnuna og eldað í um 10 mín. til viðbótar eða þar til kartöflubitarnir eru orðnir mjúkir.

Það má alltaf stytta sér leið í fyrstu skrefunum í austurlenskri matargerð með því að kaupa tilbúið naan-brauð en fyrir þá sem vilja allt heimatilbúið þá er hér ágætis uppskrift. Þessi uppskrift miðast við að brauðin séu grilluð, þ.e. á útigrillinu. Hægt er að nota bakaraofn á grill-stillingu en þá þarf að hafa ofngrindina ofarlega og gefa brauðunum lengri tíma til að bakast. 

Meðlæti:
Naan brauð með hvítlauk 

1 pk. þurrger
240 ml vatn (37°C)
4 msk. sykur
3 msk. mjólk
1 egg
2 tsk. salt
4½ bolli hveiti
2 tsk. rifinn/pressaður hvítlaukur
4 msk. brætt smjör

Aðferð:
Leysið gerið upp í vatninu og leyfið að standa í um 10 mín. Hrærið sykri, mjólk, eggi og salti saman við. Blandi nægu hveiti saman við svo úr verði mjúkt og meðfærilegt deig. Hnoðið deigið á hveitistráðu borði í um 6 – 8 mín. Deigið sett í olíuborna skál og látið hefast í klukkustund undir röku viskustykki. Deigið er kýlt niður og hvítlauk hnoðað í það. Deigið er klipið í sundur og mótaðar kúlur (á stærð við golfkúlur). Kúlunum er raðar á bakka og látnar hefast í 30 mín. undir viskustykki.  Grillið hitað upp og smá olía pensluð á grindina. Kúlurnar eru flattar út og settar (ein í einu) á grillið í um 2 – 3 mín. Hliðin sem snýr upp er pensluð með smjöri og brauðinu snúið við. Bakaða hliðin er nú pensluð með smjöri og brauðið tekið af grillinu þegar það er tilbúið (u.þ.b. 2 – 4 mín.).

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir