Iðnaðarsigur Stólastúlkna í Grafarvoginum
Stólastúlkur spiluðu í dag við lið Fjölnis á Extra vellinum í Grafarvogi í sjöundu umferð Lengjudeildarinnar. Lið heimastúlkna hafði fyrir leikinn aðeins krækt í eitt stig en lið Tindastóls hefur hniklað vöðvana í baráttunni um sæti í Bestu deildinni að ári. Stólastúlkur byrjuðu leikinn vel og gerðu fljótt tvö mörk en náðu ekki að bæta við og unnu á endanum 0-2 sigur sem fleytti liðinu upp í annað sæti deildarinnar.
Bryndís Rut Haraldsdóttir kom gestunum yfir eftir 16 mínútna leik og níu mínútum síðar bætti Hannah Jane Cade við marki tvö. Sem fyrr segir þá skaust lið Tindastóls upp í annað sæti deildarinnar með sigrinum. Stólastúlkur eru með 16 stig en lið FH er á toppnum með 19 stig. Víkingur og HK eru síðan með 15 stig og spútniklið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis er með 14 stig. Það stefnir því allt í æsispennandi baráttu um sæti í Bestu deildinni. Helsta áhyggjuefni Stólastúlkna er að illa gengur að nýta færin en liðið hefur aðeins gert tíu mörk í sjö leikjum. Vörnin stendur þó fyrir sínu og hefur aðeins lekið fjórum mörkum.
„Mér fannst úrslitin sanngjörn, áttum góðan fyrri hálfleik og uppskárum tvö mörk. Fyrra markið var skallamark eftir hornspyrnu og það seinna kom eftir lélega hreinsun frá markmanninum sem var kominn frekar langt út úr teignum svo Hannah náði boltanum og setti langa spyrnu yfir markmanninn. Fengum síðan mörg færi en boltinn vildi ekki aftur inn svo það gaf þeim smá von í seinni hálfleik en niðurstaðan var 2-0 sem er bara flott!“ sagði fyrirliði Stólastúlkna, Bryndís Rut, í samtali við Feyki.
Nú á fimmtudag kemur lið Augnabliks í heimsókn á Krókinn en fyrri umferðinni lýkur síðan með útileik Stólastúlkna gegn toppliði FH á Kaplakrikavelli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.