Íbúum fjölgar í Húnabyggð: „Engin ástæða til annars en að vera bjartsýn og jákvæð“
Íbúum Húnabyggðar fjölgaði um 1,3 prósent, 17 manns, á tímabilinu frá 1. desember 2022 til 1. ágúst 2023. Uppbygging í gamla bænum á Blönduósi og nýsköpun í matvælaiðnaði eru m.a. taldar áhrifaþættir þess að sögn Péturs Arasonar, sveitarstjóra Húnabyggðar.
Feykir hafði samband við Pétur og spurði hann hvort hann hefði skýringu á fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Mikil umræða hefur verið um svokallaða Húnavallaleið sem á að stytta leiðina á milli Akureyrar og Reykjavíkur og þar með sneiða fram hjá Blönduósi. Hagsmunaaðilar eru skiljanlega mótfallnir þeirri hugmynd og minnist Pétur á það til að byrja með af sinni laufléttu kímni.
„Það gæti margt legið að baki þessari fjölgun, það keyra jú um 700.000 manns hérna í gegn á hverju ári þannig að eitthvað af þessu fólki villist inn og festist hérna. Það gæti t.d. verið að leita að Húnavallaleið og veit ekki fyrr en það er komið inn á góðan veitingastað eða kaffihús og ákveður að setjast hér að,” segir Pétur.
Mikil uppbygging hefur verið á Blönduósi undanfarið, blásið hefur verið lífi í gamla bæinn með tilkomu fjárfestinga á borð við Hótel Blönduós og á árinu hefur hátækni- og nýsköpunarfyrirtækið Foodsmart Nordic ýtt úr vör starfsemi sinni á Blönduósi á sviði fæðubótarefna framleiddu úr íslensku sjávarfangi.
„Þetta skýrist einnig af þeirri uppbyggingu sem er í gangi bæði í gamla bænum og t.d. í nýsköpun í matvælaiðnaði. Fyrirtæki á svæðinu er líka sum hver að vaxa og Textílmiðstöðin hefur náð alvöru fótfestu. Þannig að það er ýmiskonar gerjun í gangi og engin ástæða til annars en að vera bjartsýn og jákvæð.”
Þrátt fyrir þessa fjölgun segir Pétur sveitarfélagið vera í varnarleik þrátt fyrir tækifæri til sóknar, því bakslag gæti komið og ekki þyrfti mikið til þess.
„Svæðið okkar á Norðurlandi Vestra er hins vegar brothætt að mörgu leiti og byggðarþróun hér öðruvísi en á mörgum öðrum stöðum á landinu. Það þarf því ekki mikið að koma upp á til að bakslag verði. Því er mikilvægt að svæðið fái þá grunnþjónustu frá opinberum félögum sem við eigum rétt á þannig að hér sé vegakerfi sem er fólki bjóðandi og að til sé raforka og heitt vatn til atvinnuuppbyggingar. Þetta er því miður ekki þannig eins og staðan er og því erum við í varnarleik þrátt fyrir að hafa óþrjótandi tækifæri til sóknar.”
Pétur er þó heilt yfir bjartsýnn á að íbúum fari áfram fjölgandi enda atvinnulífið sívaxandi og menningarlífið á uppleið. Þá hefur veitingastöðum og kaffihúsum fjölgað.
„En við tökum þessa fjölgun þó hún sé ekki afgerandi og stígandi lukka er best og við trúum að þetta sé á leiðinni upp. Atvinnulífið er í gerjun eins og áður segir, það eru komnir fleiri veitingastaðir og kaffihús og við höfum einnig verið að blása lífi í menningarlífið. Þetta saman á eftir að skila okkur skemmtilegra, fjölbreyttara og betra mannlífi í sveitarfélaginu,” segir Pétur að lokum.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.