Íbúar við Hólmagrund óþreyjufullir

Íbúar við götuna vilja úrbætur vegna hraðaksturs

Nokkuð er síðan Feykir.is greindi frá því að íbúar við Hólmagrund sendi sveitarstjórn Skagafjarðar bréf þar sem farið var fram á úrbætur vegna umferðarhraða í götunni. Nú hafa íbúarnir sent annað bréf.

Sigurður Bjarni Rafnsson íbúi á Hólmagrund 5 segir óviðunandi að ekkert hafi heyrst frá fulltrúum sveitarstjórnar varðandi málið. Íbúarnir hafa farið þess á leit við bæjaryfirvöld að götunni verði breytt í innstefnugötu, settar upp þrengingar eða hraðahindranir eða jafnvel að götunni yrðir lokað í miðju.

Bréf íbúanna til sveitarfélagsins hljóðar svo: 

Nú eru liðin tvö ár frá því við skiluðum undirrituðum lista frá okkur varðandi umferðaröryggi við Hólmagrund þar lýsum við áhyggjum okkar vegna mikils umferða hraða í götunni, sem fyrr segir hafa liðið tvö ár og ekkert hefur verið gert þrátt fyrir marg ítrekaðar fyrirspurnir allt svo eitt símtal í mánuði nú erum við algjörlega búin að fá nóg af skeytingarleysi bæjaryfirvalda og viljum fá svör.

Við óskuðum eftir að götunni yrði breytt í innstefnu götu, þrengingar, hraðahindranir eða jafnvel að götunni yrðir lokað í miðju. Hér með óska ég fyrir hönd íbúa við Hólmagrund eftir skýrum svörum og hvað verður gert í framhaldinu.
Virðingarfyllst Sigurður Bjarni Rafnsson íbúi á Hólmagrund 5.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir