Í slagtogi með Vinstri grænum !
Vinstri grænir í Skagafirði og Húnavatnssýslum viðra alvarlegar áhyggjur sínar vegna fjárlagagerðar í samþykkt sem þeir gerðu á dögunum. Það er ekki gert að tilefnislausu. Þetta eru sams konar áhyggjur og ég lýsti í grein sem birtist hér víða í vefmiðlum kjördæmisins á dögunum undir fyrirsögninni Vígbúumst til varnarbaráttu. Viðbrögð við þeirri grein voru mikil, enda benti ég þar á hættu sem kynni að verða samfara fjárlagagerðinni; sem sé þeirri að það myndi halla á landsbyggðina. Fjárlög voru þá ekki komin fram. En því miður reyndist ótti minni ekki ástæðulaus.
Fjárlögin eru einmitt þessu marki brennd, sem ég óttaðist og var að biðja menn um að vera á varðbergi gagnvart. Í grein minni sagði ég meðal annars: „Það er gömul saga og ný að þegar kemur að því að herða að ríkisrekstrinum, þá birtast alltaf tillögur sem ganga út á að skera niður eins fjarri höfuðstöðvum stofnana og hægt er. Lítil útibú úti á landi, litlar ríkisstofnanir og annað þess háttar verða alltaf efstar á óskalistanum þegar farið er í þessi verk.“
Engar vegaframkvæmdir á næsta ári
Nú er þetta komið á daginn og gott betur. Fjárlagafrumvarpið felur það í sér að ekki verður um neinar nýjar vegaframkvæmdir að ræða á næsta ári. Engar, ekki nokkrar að minnsta kosti sem ná almennilegu máli. Ekki þarf að orðlengja um afleiðingarnar fyrir byggðirnar þar sem þörfin fyrir vegabótum er himinhrópandi mikil. Og með þessu steðjar síðan mikil vá að verktakastarfsemi út um landsins byggðir, með tilheyrandi afleiðingum, meðal annars fyrir atvinnustigið.
Þetta verða menn að taka mjög alvarlega og gera sér grein fyrir alvöru málsins.
Þess vegna fagna ég því að svæðisfélög Vinstri grænna, skuli í raun taka undir málflutning minn í samþykkt sem greint hefur verið frá. Þar er sagt:
„Sóknaráætlun gegn landsbyggðinni“
„Áform eru um niðurskurð á opinberri þjónustu langt umfram þau viðmið sem boðuð hafa verið á landsvísu og flutning verkefna og starfa til höfuðborgarsvæðisins, svo sem með niðurlagningu sýslumannsembætta og héraðsdómstóls án þess að haldbær rök hafi verið færð fyrir sparnaði af slíkum tilflutningi. Tillögur sem fela í sér upplausn stjórnkerfisins, aukna embættismannavæðingu og miðstýringu frá höfuðborgarsvæðinu eru að auki til þess fallnar að rjúfa tengsl við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og takmarka möguleika landsbyggðarinnar til að nýta auðlindir sínar og mannauð.
Af sama toga eru hugmyndir forkólfa svokallaðrar sóknarnefndar forsætisráðherra. Ef þær ná fram að ganga verður ennfremur einn landshluti, Norðurland vestra, eitt gömlu kjördæmanna skilinn eftir þegar skilgreind verða stjórnsýslu og vaxtarsvæði landsins. Að óbreyttu er verið að boða sóknaráætlun gegn landsbyggðinni."
Allt er þetta satt og rétt og þarna birtist sama hugsun og í tilvitnaðri grein eftir mig sem ég vék hér að. Við vitum vel að ríkisstjórninni er vandi á höndum við fjárlagagerðina og þar eru engir kostir góðir. Við vitum líka að niðurskurður og tekjuöflun kemur alls staðar við og það er óhjákvæmilegt. En við þær aðstæður er brýnt að samhengi þessara mála sé sanngjarnt. Það er ekki þannig hvað landsbyggðina varðar í þessu fjárlagafrumvarpi og því þarf að breyta.
Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.