Hvernig skilar aukinn arður sér best til almennings?
Við hljótum að geta sammælst um nokkur grundvallaratriði í sambandi við sjávarútvegsmálin, þó sannarlega megi þar endalaust betrumbæta. Þannig hljótum við að geta orðið sammála um að við höfum náð miklum árangri. Hér hefur arðsemi í sjávarútvegi að jafnaði aukist á hverju ári um hálft prósent frá árinu 1984, sem er mikill árangur á þeim tæpu þrjátíu árum sem liðin eru frá þeim tíma að farið var að stjórna veiðum með kvótakerfi.
Það segir svo sína sögu að ríkisstyrkir í sjávarútvegi eru landlæg plága út um öll lönd og álfur, en hér er því öfugt farið. Er ekki líka ástæða til þess að hlusta eftir því að fjölmargar þjóðir horfa til okkar sem fyrirmyndar þegar kemur að skipulagi sjávarútvegsmála.
Ríkisstjórnin viðurkennir ávinningin af sjávarútvegsstefnunni
Og er það ekki óræk sönnun að eitthvað höfum við gert rétt að nú fer fram mikil umræða um það á Íslandi að svo mikill hagnaður hafi orðið við nýtingu okkar á fiskveiðiauðlindinni að ástæða sé til þess að skattleggja þann arð með sérstökum hætti. Hvergi annars staðar í heiminum er slík skattlagning hins vegar til staðar og felur þetta því í sér vísvitandi eða óafvitandi skoðun þeirra sem nú bera fram frumvörp um aukna skattlagningu á sjávarútveg, að það skipulag sem við höfum á veiðum, hafi verið árangursríkt.
Séu menn þá þessarar skoðunar að vel hafi tekist til við að mynda arð í þessari grein, sem ekki hafi tekist hins vegar hjá öðrum þjóðum, þá ætti slíkt að leiða til þess að menn gerðu ekki grundvallarbreytingar á fiskveiðikerfinu, sem þó hefur skilað þessum árangri, þrátt fyrir alls konar aðra galla sem á þessu fyrirkomulagi megi finna. Augljóst ætti það því að vera að menn leggðu til hliðar öll áform um að setja sjávarútveginn í eitthvað tilraunaglas og breyta honum, án þess að vita afleiðingarnar.
Í þágu þjóðfélagsins
En þá komum við að spurningunni um arðinn. Krafan sem er sett fram er í meginatriðum þessi: Það hefur myndast svo mikill arður í sjávarútvegi okkar, að það er sanngirniskrafa að hann nýtist sem best þjóðfélaginu í heild. Ræðum þetta frekar.
Gefum okkur að þetta sé svona. Að það hafi orðið mikil arðsmyndun í okkar sjávarútvegi með því fiskveiðifyrirkomulagi sem við notum, ólíkt því sem almennt hefur gerst hjá sjávarútvegsþjóðum. Sé það svo þá hljótum við að vilja viðhalda slíku kerfi. Eða dytti nokkrum bónda í hug að minnka nyt mjólkurkúnna sinna með réttlætishugsjónina að vopni?
Og þá kemur að spurningunni sem við ættum að vera að ræða; hvernig getum við tryggt að þessi góði árangur nýtist þjóðfélaginu öllu sem best?
Það eru nokkur atriði sem leggja ber áherslu á.
Sterkari fyrirtæki
Í fyrsta lagi er það forsenda þess að þjóðfélagið njóti arðsins að fyrirtækin geti notað árangur sinn, til þess að greiða niður skuldir, fjárfesta og takast þannig á við framtíðina. Sjávarútvegurinn er í eðli sínu fjármagnsfrekur. Það er augljóslega í þágu þjóðfélagsins alls að þegar vel gengur í sjávarútvegi séu fyrirtækin í færum til þess að byggja sig upp. Við ætlumst líka til þess að sjávarútvegurinn sjálfur greiði fyrir hagræðinguna, sem felst í því að fækka skipum, sameina aflaheimildir og draga þannig úr sóknartengdum kostnaði. Aðrar þjóðir leggja þennan kostnað á skattborgarana. Það gerum við ekki.
Hvað með starfsfólkið?
Í öðru lagi, hlýtur það að vera sanngjörn krafa þess starfsfólks sem í sjávarútvegi vinnur að það fái notið skerfs af því þegar vel gengur tekjur greinarinnar aukast arðurinn eykst. Það er því ekki óeðlilegt að starfsfólk til sjós – og ekki síður til lands – kalli eftir því að njóta ávaxtanna. Það gerist hins vegar ekki í gegn um sérstaka skattheimtu ríkisins á greininni. Þvert á móti. Sú skattheimta rýrir möguleika sjávarútvegsins til þess að bæta kjör starfsfólksins. Og er það þá liður í því að koma hinum meinta arði til almennings, að kjör starfsfólks í sjávarútvegi versni og starfsöryggið rýrni? Svarið er augljóst. Þetta skynjar starfsfólk sjávarútvegsfyrirtækjanna og þess vegna hefur það risið upp og mótmælt sjávarútvegsfrumvörpum ríkisstjórnarinnar.
Landsbyggðarskattur?
Í þriðja lagi. Þegar upp rís krafan um sértæka skattlagningu á sjávarútveg, þá hljóta íbúar landsbyggðarinnar að rísa upp. Tekjur sjávarútvegsins verða til í fyrirtækjunum sem eru að yfirgnæfandi hluta staðsett á landsbyggðinni. Rannsóknir sýna hins vegar að skatttekjum ríkisins er einkanlega varið á höfuðborgarsvæðinu. Skattheimtan í landinu er sem sagt í eðli sínu stórfelldir fjármagnsflutningur frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðinu. Sértæk skattlagning á sjávarútveg, sem er að svo miklu leyti á landsbyggðinn,i er þá eins konar einstefnuloki, þar sem fjármagnið er sogað frá landsbyggð og til höfuðborgarsvæðisins.
Þess vegna hafa menn krafist þess að þessar skatttekjur verði eftir í byggðunum, í sveitarsjóðunum eða hafnarsjóðunum. Það er eðlileg krafa í sjálfu sér, en þó dálítið sérkennileg engu að síður. Það sem þá er verið að gera, er að skattleggja fyrst fyrirtækin á landsbyggðinni, fara með fjármunina í hring og láta það svo ramba inn í sveitarsjóðina, með einhverjum hætti.
Styrking gengisins
Loks má nefna það sem ASÍ leggur áherslu á, sem er að besta leiðin sé að styrkja gengi krónunnar, þá breytist samkeppnisstaða útflutningsgreina, ( þar með talið sjávarútvegsins) en batni hjá öðrum. Sterkara gengi, leiði svo aftur til lægra innflutningsverðlags og bætts kaupmáttar. Hafa þeir talað um 20% gengisstyrkingu í því sambandi, sem myndi lækka tekjur af sjávarútvegsskattinum um 33%, eða þar um bil, en bæta kaupmátt og er raunar forsenda kjarasamninga þeirra sem nú gilda.
Fyrirtækin verða að hafa borð fyrir báru
En eftir stendur hins vegar alltaf það sem skiptir mestu máli. Fyrirtækin verða að hafa mikið borð fyrir báru. Þau verða að fá færi á því að lækka skuldir, ráðast í nýjar fjárfestingar, því án þeirra dregst greinin aftur úr og hættir að vera sá dráttarklár sem hún er í dag fyrir efnahagslíf okkar. Og síðast en ekki síst. Það hlýtur að vera forgangsverkefni að fyrirtækjunum sé gert kleyft að bæta hag síns starfsfólks, ekki síst landverkafólks, til þess að gera þessa mikilvægu atvinnugrein aðlaðandi og færa þannig afrakstur af góðu gengi til almennings. Það væri svo í ofanálag besta byggðastefnan sem hægt væri að beita í landinu.
Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.