Hverja hafa Skagfirðingar átt á topp 10
Skagfirðingi sem leiddist í vinnunni fannst ekki úr vegi í tilefni af kjöri Íþróttamanns ársins í gær, að líta yfir topp 10 lista kjörsins í áranna rás. Þar má m.a. sjá að tveir orginalar hafa komist inn á topp 10 lista í kjörinu; Þau Vanda Sigurgeirsdóttir knattspyrnukona, sem var á listanum 1994 og Eyjólfur Sverrisson sem var á listanum 1991, 1992, 1998, 1999 og 2000. Hæst komst hann í 2. sæti í kjörinu, en það var árið 1999 þegar hann varð á eftir Erni Arnarsyni sundmanni.
Jón Arnar Magnússon var á topp 10 listanum 1994, 1995, 1996, 1997 og 1998 undir merkjum Skagfirðinga og þar af var hann kjörinn Íþróttamaður ársins 1995 og 1996. Hann var síðar á listanum undir merkjum Breiðabliks á árunum 2001, 2002 og 2003.
En það er líka gaman að skoða listann út frá því hvaða íþróttamenn hafa æft og stundað sínar íþróttir í Skagafirði á einhverjum tímapunkti ferils síns óháð því hvort þeir hafi verið á topp 10 listanum í kjörinu á sama tíma.
Þannig má sjá Árna Stefánsson fyrrum landsliðsmarkvörð í knattspyrnu – sem eiginlega er áunninn Skagfirðingur, en hann var á listanum árið 1975. Síðar flutti hann í Skagafjörðinn og lék með Tindastóli og þjálfaði um árabil. Valur Ingimundarson körfuknattleiksmaður sem lék með Tindastóli í mörg ár ásamt því að þjálfa einnig, var á listanum árið 1984 sem leikmaður Njarðvíkur. Páll Kolbeinsson kollegi hans var á listanum 1990 undir merkjum KR, Pétur Guðmundsson hinn stóri var á listanum 1981, 1982 og 1986 sem leikmaður með Val, ÍR og Los Angeles Lakers í NBA-deildinni bandarísku. Pétur Pétursson, lék með Tindastóli í knattspyrnu á sínum tíma, en hann var á meðal 10 efstu í kjöri á Íþróttamanni ársins 1981, 1982 og 1983, tvö hin seinni ár sem leikmaður Feyenoord í Hollandi.
Af þessri upptalningu sem er meira til gamans en gagns, má sjá að talsverður fjöldi afreksíþróttamanna hafa dvalið í lengri eða skemmri tíma í Skagafirði við íþróttaiðkun sína sé miðað við þennan ágæta lista í kjöri íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins og þar af tveir orginalar, þau Vanda og Eyjólfur.
Draga má þá ályktun sé litið yfir listann, að Eyjólfur Sverrisson sé fræknastur skagfirskra íþróttakappa fyrr og síðar.
Skorar vefsíðan á Húnvetninga sem leiðist í vinnunni að fara yfir stöðuna á sínum heimavelli
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.