Illviðri og úrkoma í kortunum upp úr miðri viku

Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði hafa verið opnaðar fyrir umferð en þeim var lokað í nótt vegna veðurs og færðar. Flestallir vegir á Norðurlandi vestra eru því færir en víða má reikna með hálku eða hálkublettum. Lægðagangur verður viðvarandi út vikuna með tilheyrandi úrkomu og hvassviðri. Gul viðvörun er fyrir Norðurland vestra frá kl. 15 á morgun, miðvikudag, og fram á miðjan fimmtudag.
Í dag má reikna með hita í kringum frostmark og sunnanátt allt að 10 m/sek á Norðurlandi vestra. Aðfaranótt miðvikudags er spáð éljum eða snjókomu fram yfir hádegi en þegar líður að kvöld hvessir hressilega en um leið hækkar hitinn og úrkoman verður í rigningarformi. Versta veðrinu er spáð aðfaranótt fimmtudags en þá gæti vindur farið vel yfir 20 m/sek í suðvestanátt. Á hádegi á fimmtudag er spáð hita að 10 stigum og hellirigningu fram eftir degi.
Heldur lækkar rostinn í veðrinu þegar nálgast helgina og þá útlit fyrir skaplegra veður.
UPPFÆRT KL. 13:30: Veðurstofan hefur uppfært viðvörun úr gulri í appelsínugula og á það við megnið af landinu frá því um kl. 15 á morgun og stendur yfir í sólarhring hið minnsta. Er nú gert ráð fyrir sunnanillviðri, 20-30 m/s (stormur, rok eða ofsaveður). Hlýtt um allt land og rigning, talsverð eða mikil á sunnan- og vestanverðu landinu. Raskanir á samgöngum líklegar. Útlit fyrir vatnavexti. Líkur á staðbundnu foktjóni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.