Hvað á að gera við afgangana?
Ef ekki er þegar búið að klára jólamatinn og stemning ekki góð fyrir köldum sneiðum af hangikjötinu eða hamborgarhryggnum eru ýmsar leiðir til að galdra upp nýjan matseðil úr afgöngunum. Það er sannarlega hægt að gera fleira en að bera kjötið fram kalt eða hita það í tartalettum. Á Lambakjöt.is segir að margar uppskriftir sem ætlaðar eru fyrir skinku, hamborgarhrygg eða annað reykt svínakjöt henti ágætlega fyrir hangikjöt líka og það er óhætt að leyfa hugmyndafluginu að ráða svolítið.
Hráefni
- 4-500 g soðið hangikjöt
- 100 g þurrkaðar apríkósur og/eða sveskjur
- 2 msk. olía
- 1 tsk. paprikuduft
- nýmalaður pipar
- nokkrar tímíangreinar
- 1 tsk. rósapipar
- spínat eða salatblöð
Leiðbeiningar
Skerið hangikjötið í teninga og apríkósur og sveskjur í bita. Hitið olíuna á pönnu, setjið hangikjötsteningana og ávextina á pönnuna, kryddið með paprikudufti, pipar, tímíani og rósapipar og steikið við meðalhita í nokkrar mínútur. Hrærið oft í á meðan; kjötið á að hitna í gegn og e.t.v. brúnast örlítið. Raðið spínat- eða salatblöðum í víða skál eða á fat, hellið hangikjötsblöndunni yfir og berið fram.
Á Vefuppskriftir.com er uppskrift að rétti úr afgangshamborgarahrygg.
Þú þarft eftirfarandi hráefni í uppskriftina.
- Cirka 500 grömm hamborgarahryggur, etv. afgangar
- Frosnar grænar baunir
- 30 grömm smjör
- 3 matskeiðar sykur
- Kokteilpylsur, eftir smekk (eða pylsur í minni bitum)
- Hrísgrjón
- Rjómi og mjólk
Aðferð fyrir Réttur með hamborgarahrygg:
Sjóðið hrísgrjónin í léttsöltu vatni. Bræðið smjörið í frekar stórum potti. Stráið sykrinum yfir og látið hann bráðna. Skerið hamborgarahrygginn í sneiðar og leggjið þær í sykurinn. Veltið sneiðunum aðeins uppúr sykrinum. Hristið mjólk og rjóma saman og hellið því yfir, nóg til að það nái uppfyrir hamborgarahryggssneiðarnar. Bætið svo grænum baunum og kokteilpylsum í eftir smekk. Látið þetta hitna og berið fram með hrísgrjónum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.