Húnvetningar sóttu sigur í Hafnarfjörðinn

Húnvetningar voru heldur betur í partýgírnum í gær; kosningar, Eurovision og fyrsti sigurinn í 3. deildinni varð að veruleika í Skessunni í Hafnarfirði þegar lið Kormáks/Hvatar gerði sér lítið fyrir og lagði heimamenn í ÍH að velli í hörkuleik. Sigurmarkið kom þegar skammt var til leiksloka og lokatölur úr Hafnarfirði 2-3.

Í því sem margir hafa sagt vera ótímabæra spá Fótbolti.net þá var báðum liðum spáð falli niður í 4. deild. Það var því sterkt hjá Húnvetningum að næla í stigin þrjú á útivelli í gær. Viktor Ingi Jónsson kom gestunum yfir á 13. mínútu en Dagur Traustason tók markamínútuna (43) til kostanna fyrir lið ÍH og jafnaði leikinn skömmu fyrir hlé.

Það tók Ante Marcic aðeins tvær mínútur að ná forystunni á ný fyrir lið Kormáks/Hvatar í síðari hálfleik en enn á ný mætti Dagur til að bjarga Göflurum, jafnaði metin öðru sinni á 68. mínútu. Það var því bráðsnjallt hjá Húnvetningum að geyma þriðja markið sitt þangað til á 87. mínútu þannig að heimamenn fengu lítinn tíma til að jafna í þriðja sinn. Það var Ante Marcic sem reyndist hetja Húnvetninga og gerði sigurmarkið.

Ágæt byrjun Kormáks/Hvatar í 3. deildinni; töpuðu fyrsta leiknum naumlega en tóku eitt stykki naglbít í gær og sitja sem stendur í efra hluta deildarinnar. Næstkomandi laugardag mæta þeir Skagamönnunum í Kára á Blönduósvelli og þá þurfa Húnvetningar að fjölmenna á völlinn og styðja sína menn. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir