Húnaþing vestra kallar eftir ábendingum
Nú stendur yfir vinna við gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Hvammstanga, Laugarbakka og Borðeyri. Fyrir nokkrum árum var sambærileg vinna unnin fyrir vegi í dreifbýli og allir vegir myndaðir og hættur skoðaðar á vegum SSNV. Sambærileg vinna fer nú í gang fyrir þéttbýlisstaði í sveitarfélaginu segir á vef Húnaþings vestra.
Markmið með gerð umferðaröryggisáætlana er að auka vitund íbúa og forsvarsmanna sveitarfélagsins um umferðaröryggi. Undanfarin ár hefur Samgöngustofa hvatt sveitarfélög til að gera áætlanir um umferðaröryggismál. Teknar hafa verið saman leiðbeiningar um gerð umferðaröryggisáætlana sveitarfélaga og tekur þessi vinna mið af þeim leiðbeiningum. Gert hefur verið samkomulag við VSÓ um ráðgjöf við vinnuna en þar innanhúss er umtalsverð reynsla af gerð umferðaröryggisáætlana víðs vegar um landið.
Mikið er lagt upp úr ábendingum frá íbúum um ferðavenjur, hættur og tækifæri til úrbóta. Í því augnamiði hefur verið sett upp vefsjá og eru íbúar sem hafa ábendingar eru beðnir um að skrá þær á vefsjána.
Sérstaklega er óskað eftir að íbúar á Hvammstanga merki inn gönguleiðir nemenda í skóla til að hægt sé að skoða hvort þörf er á úrbótum á þeim leiðum. Til að senda ábendingu er smellt á hnappinn Senda ábendingu og þær skráðar í formið sem upp kemur. Hægt er að merkja inn á kortið, ýmist með punktum eða línum. Hver einstaklingur getur skráð fleiri en eina ábendingu.
Einnig má senda ábendingar á netfangið skrifstofa@hunathing.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.