Húfur handa nýfæddum börnum
Kvenfélagskonur um land allt hafa ákveðið að prjóna húfur handa öllum börnum sem fæðast árið 2010. Þetta er gert í tilefni þess að árið 2010 eru 80 ár eru liðin frá því að kvenfélög landsins mynduðu með sér samband, Kvenfélagasamband Íslands (KÍ). Kvenfélagskonur í Skagafirði taka þátt.
Á þennan hátt vilja konurnar í kvenfélögunum senda hlýja kveðju til nýrra þjóðfélagsþegna og foreldra þeirra. KÍ heldur utan um framkvæmd verkefnisins.
Áætlað er að um 5000 börn muni fæðast á árinu og fara fæðingar fram á tíu stöðum á landinu; á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Neskaupsstað, Höfn, Selfossi, Vestmannaeyjum, Keflavík og Reykjavík auk heimafæðinga. Ljósmæður, sem annast fæðingar munu afhenda foreldrum húfurnar. Húfurnar eru prjónaðar úr Kambgarni frá Ístex, sem styrkir verkefnið með kostun á prentun heillaóskakorts sem fylgir hverri húfu og er fært inn á það nafn konunnar sem prjónaði húfuna og hvaða kvenfélagi hún tilheyrir. Margir, sem ekki eru í kvenfélögum, hafa sýnt áhuga á að fá að prjóna húfur og fagna kvenfélagskonur því og hvetja viðkomandi til að hafa samband við kvenfélög á hverjum stað eða við Kvenfélagasamband Íslands.
Hugmyndin að baki þessu verkefni er að nýta afmælisárið til að vekja athygli á því mikla og hljóðláta starfi sem kvenfélagskonur vinna vítt og breytt um landið til heilla fyrir land og þjóð.
Umsjónarkonur verkefnisins:
Ása St. Atladóttir s: 845-7290, 565-0125 netfang: asasteinunn@hotmail.com,
Margrét Baldursdóttir s: 892-5312, 462-5312 netfang: brandugla@simnet.is
Hildur Helga Gísladóttir s: 552-7430, kvenfelag@kvenfelag.is
Stjórnarkonur í Sambandi Skagfirskra kvenna (SSK) hafa hvatt kvenfélagskonur í Skagafirði til að láta ekki sitt eftir liggja við prjónaskapinn og hefur verkefninu verið vel tekið. Í janúar 2010 gætu fæðst allt að 10 börn á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks. Sigríður Halldóra Sveinsdóttir sem er ritari SSK er umsjónarkona húfuverkefnisins í Skagafirði og mun hún sjá um að húfur berist í tæka tíð á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks.
Sigríður Halldóra Sveinsdóttir s: 534-7975, 846-7075 netfang: sigrsve@mi.is
Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.