Hrikalega góð eplakaka
Þessa vikuna eru það Friðjón Bjarnason og Auður Aðalsteinsdóttir á Sauðárkróki sem bjóða okkur upp á uppskriftir vikunnar. -Við í matarhorninu ætlum að stinga upp á því að þið hvílið ykkur á grillmatnum og prófið indælan fiskrétt í staðinn með krydduðum hrísgrjónum og fersku salati. En fyrst ætlum við að gefa ykkur uppskrift að túnfisksalati sem tilbreytingu frá hinu hefðbundna, og að endingu kemur svo uppskrift að hrikalega góðri eplaköku.
Túnfisksalat:
- 1 dós túnfiskur í olíu (ora),( hellið olíunni af)
- 15 cm selleristilkur, smátt saxaður
- 1/2-1 stk. epli rautt, smátt saxað
- 3 msk majones
- 2 msk súrmjólk
- örlítið salt, ef vill
Blandið þessu saman í skál, og berið fram með Ritz kexi.
Góður fiskréttur:
- 800 gr. af ferskum fiski, helst lúðu, steinbít og ýsu í bland. Sneiddur í litla bita.
- 150 gr. rækjur (lúxusrækjur frá Dögun) afþýddar.
- 1 stk laukur, saxaður
- 1/2 dl sellerírót, raspað
- 3 stk hvítlauksgeirar, kreistir
- 1/2 rauð paprika, söxuð
- 2 msk taílensk fiskisósa (fæst í Skaffó)
- 3 dl matreiðslurjómi
- 1 tsk sítrónusafi
- salt og pipar
- 3 msk olía og smjörklípa til steikingar
Hitið olíu og smjör á pönnu og léttsteikið lauk, sellerírót, hvítlauk og papriku. Hellið matreiðslurjómanum, fiskisósunni og sítrónusafanum yfir og hitið að suðu. Leggið þá fiskinn í sósuna og látið malla í 4-5 mín. eða þar til fiskurinn er soðinn, passið að ofsjóða ekki! Saltið og piprið að vild, ef sósan er of sterk þá bætið aðeins meira af rjómanum og sítrónusafanum í. Leggið svo rækjurnar að síðustu í sósuna og leyfið að hitna.
Hrísgrjón:
- 2 pokar Basmati grjón, sjóðið samkv. leiðb. á pakka. Best er ef grjónin eru orðin köld. Sniðugt að nota rest frá gærdeginum.
- 1/2 laukur, saxaður
- 10 cm selleristöng, saxað
- 2 stk hvítlauksgeirar pressaðir
- 1/2 msk karrý
- 3 msk olía
Léttsteikið lauk, sellerí og hvítlauk í olíunni í potti. Bætið karrýinu saman við og að lokum grjónunum í og hitið. Saltið örlítið.
Berið fiskréttinn fram með grjónunum og fersku salati.
Amerísk eplakaka:
Smyrjið 24 cm kökuform. og hitið ofninn í 175°
- 200 gr smjör mjúkt
- 21/2 dl sykur
- 3 stk egg
- 4 dl hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1 dl rjómi
- 11/2 tsk vanilludropar
- 2 stk epli skorin í bita
- 1-2 msk kanilsykur
Hrærið vel saman í hrærivél, smjör og sykur þar til það er orðið ljóst. Bætið við einu eggi í senn og hrærið vel á milli. Blandið saman í skál hveiti og lyftidufti og hrærið varlega saman við deigið. Bætið rjómanum og vanilludropum út í og hrærið deigið jafnt. Setjið blönduna í kökuformið og þrýstið eplabitunum ofan í. Endið svo á að dreifa kanilsykrinum yfir áður en kakan er sett í ofninn í 40-50 mín. Berið kökuna fram volga með þeyttum rjóma eða ís.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.