Hörpuskel, humar og heimalagaður ís

Það voru þau Péturína Jakobsdóttir, akstursíþróttamaður ársins 2001og skrifstofustjóri hjá Léttitækni og hennar ektamaki Reynir Lýðsson, Strandamaður og stöðvarstjóri Fiskmarkaðarins á Skagaströnd sem töfruðu fram meistararétti úr sjávarfangi fyrir réttum 3 árum. Þau skoruðu á Stefán Sveinsson stórverktaka og veiðimann og Hafdísi Hrund Ásgeirsdóttir skipulagsséní og hársnyrtisvein á Skagaströnd að koma með uppskriftir í Feyki að tveimur vikum liðnum.

 

Ristuð hörpuskel með serrano skinku og kryddsmjöri

  • Risahörpuskel
  • Serrano skinka

 

Kryddsmjör:

  • 70 gr mjúkt smjör
  • 10 gr kóríander
  • 10 gr steinselja
  • safi úr hálfri sítrónu
  • salt
  • pipar

 

Smjöri, kóríander, steinselju, sítrónu, salti og pipar blandað saman.  Risahörpuskel er vafin serrano skinku - yfirleitt hefur nægt að nota eina sneið utan tvo hörpudiska. Skinkan er fest með tannstönglum. Best er að krossfesta hörpudiskinn - þá hreyfist skinkan ekki neitt. Raðað í eldfast mót.

Kveikt er á grillinu í ofninum og hann látinn ná blússandi hita - 250 gráðum. Hörpuskelin er ristuð í ofni í 1 1/2 mínútu á hvorri hlið, svo er hörpuskelin tekin úr ofninum - smjörklípa er sett á hverja skel og svo sett í 2 mínútur undir grillið til að smjörið bráðni. Borið fram á beði af klettasalati.

 

Smjörristaður humar með hvítlauk og rjómasoðnu pasta

  • 200 gr pastaskrúfur
  • slatti af skelflettum humarhölum
  • 2 tsk marinn hvítlaukur
  • 1 msk hökkuð steinselja
  • 3 dl rjómi
  • salt og pipar
  • slatti af ólífuolíu
  • safi úr ¼ sítrónu
  • 2-3 gulrætur (skornar í ræmur)
  • 1 lítill blaðlaukur (skorinn í ræmur)
  • 1 paprika (skorin í ræmur)
  • Hunang

 

Sjóðið pastað í léttsöltu vatni með ólífuolíu skvettu og látið vatnið síðan renna vel af því.  Hitið ólífuolíu á pönnu, setjið pastað á hana og kryddið með salti og pipar.  Hellið síðan rjóma yfir pastað og sjóðið snögglega niður, bragðbætið með sítrónusafa.  Setjið pastað á stórt fat.

Steikið grænmetisstrimlana í ólífuolíu. (gott að bragðbæta með hunangi,salti og pipar) Dreifið grænmetinu yfir pastað.

Hitið ólífuolíu á pönnunni og steikið humarinn.  Bætið hvítlauknum og steinsejunni yfir, kryddið með salti og pipar.  Þegar humarinn er tilbúinn er honum skellt yfir pastað og grænmetið og þetta er tilbúið á borðið.  Borið fram með góðu hvítlauksbrauði ef fólk vill.

 

Heimatilbúinn ís

  • 4 egg
  • 1 ½ bolli sykur
  • ½ l rjómi
  • vanilludropar

Þeytið egg og sykur vel saman, rjómi þeyttur sér, blandað varlega saman með sleikju.  Ísinn er bragðbættur með vanilludropum (smakkað til) og svo er hægt að setja hvaða súkkulaði sem er í blönduna ef fólk vill bragðbæta meira.  Ísinn er síðan frystur í formum sem fólk vill.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir