Höldum áfram góðu starfi í sveitarstjórn og nefnum
Samkvæmt málefnasamningi meirihluta Framsóknarflokks og Vinstri grænna í Skagafirði, sem birtur var í Feyki í síðustu viku er fyrsta verkefnið svohljóðandi „ Áhersla verður lögð á að eiga gott samstarf við fulltrúa annarra flokka í sveitarstjórninni, starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa Skagafjarðar“.
Mikið var ég sammála þegar ég las þetta því eitt af stefnumálum Samfylkingarinnar fyrir fjórum árum, var að auka traust samfélagsins á Sveitarstjórninni ásamt því að standa vörð um ímynd sveitarfélagsins á vettvangi sveitarstórnar. Jákvæðni, samstaða og vinnugleði skyldu einkenna störf sveitarstjórnar og að mínu mati gekk það eftir, það náðist góð samstaða allra flokka og ákveðið traust á milli fólks. Lagt var upp með breytt verklag eins og að ákveða að Vinstri græn, sem náðu ekki inn fulltrúa í nefndir og ráð , hefði áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt, það verklag skilaði sér vel í allri umræðu og ákvörðunartöku, til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins.
Mér var hugsað til þessa þegar ég sat fyrsta fund sveitarstjórnar í gær, á dagskrá var tillaga frá Frjálslynda flokknum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, að þeim flokkum sem ekki hafa fengið kjörna fulltrúa í fastanefndir fengju að skipa áheyrnarfulltrúa í viðkomandi nefnd með málfrelsi og tillögurétt.
Meirihluti Framsóknar og Vinstri grænna, var þessu ekki sammála og lagði fram breytingartillögu þess efnis að einn áheyrnarfulltrúi yrði í nefndum og minnihlutinn skipti nefndum á milli sín. þetta kom mér í opna skjöldu þar sem forseti sveitarstjórnar, Bjarni Jónsson VG, hafði haft samband fyrir helgi og sagt að meirihlutinn samþykkti áheyrnarfulltrúa allra flokka í nefndir.
Ekki góð byrjun á því að eiga gott samstarf við fulltrúa annarra flokka í sveitarstjórn þykir mér, enda var loftið rafmagnað á þessum fyrsta fundi og ekki góð byrjun á vinnu sveitarstjórnar og ekki góð byrjun á því að viðhalda þeim lýðræðislegu vinnubrögðum sem við höfðum blessunarlega haft vit á að tileinka okkur í síðustu sveitarstjórn.
Það sem einn gerir vel gerir hópur enn betur
Það er ljóst, að núverandi sveitarstjórn þarf á komandi kjörtímabili, að taka margar erfiðar ákvarðanir sem snerta hag íbúa sveitarfélagsins, stofnana og starfsmanna. Slíkar ákvarðanir á að mínu mati að taka í öflugu samstarfi allra flokka. Samfylkingin leggur áherslu á að sveitarstjórnarfólk, hvar í flokki sem það stendur , starfi saman fyrir samfélagið. Það eru fimm flokkar með kjörna aðild í sveitarstjórn og það eiga að vera fimm flokkar sem koma að nefndum og ráðum sveitarfélagsins annað er ólýðræðislegt og rangt. Þetta er álíka og að vera með fimm menn í vinnu og láta einungis þrjá þeirra vinna.
Náungakærleiki
Nú er lag,meirihlutinn hefur tök á því að breyta þessu með því að koma á góðu samráði við fulltrúa minnihlutans fyrir næsta sveitarstjórnarfund og stuðla að auknum náungakærleik og markvissari vinnubrögðum.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Samfylkingarinnar í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.