Hlíðarhverfið ljósleiðaravætt

Jón Bjarni Loftsson og Arnar Kjartansson voru byrjaðir að leggja ljósleiðara í Hlíðarhverfinu í gær.

Hafinn er ídráttur ljósleiðara í rör sem Gagnaveitan lét leggja í Hlíðahverfið á Sauðárkróki  haustið 2008. Verkið átti að hefjast síðasta vor en tafðist vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar Gagnaveitunnar.

Gagnaveita Skagafjarðar rekur opið háhraðanet þar sem öllum þjónustuveitendum er velkomið að bjóða þjónustu sína yfir ljósleiðaranet þeirra.  -Í dag býður Fjölnet ehf.  upp á internetþjónustu og Vodafone býður Internet, síma og sjónvarpsþjónustu.  Við vonumst til þess að fleiri þjónustuveitendur bætist í hópinn síðar, segir Arnar Halldórsson verkefnisstjóri Gagnaveitunnar. -Við biðjum fyrir áframhaldandi blíðu næstu vikur, segir Arnar aðspurður um áætlun verkloka en þau eru háð veðri og vindum.  Um er að ræða 268 inntök, þar af eru 265 heimili og að sögn Arnars eru margir kostir sem fylgja ljósleiðaravæðingunni en þeir helstu eru að hraði og bandbreidd miðað við aðrar tengingar er margfaldur og sami hraði gagna til og frá notanda.

-Þessi tækni hefur engar þekktar takmarkanir, og til að fá enn meiri hraða og magn þarf aðeins að uppfæra endabúnað. Þetta er besta netið til að miðla háskerpusjónvarpi, „online“ tölvuleikjum,  myndleigu og fjölda sjónvarpsrása og getur komið í stað loftnets og símalínu, segir Arnar og bætir við að allir séu sammála um að ljósleiðarinn sé framtíðar gagnatenging heimila og fyrirtækja og allstaðar í hinum vestræna heimi er ljósleiðarinn valinn til að háhraðavæða samfélagið.

Arnar telur ávinninginn af inntöku ljósleiðarans mikinn og nefnir t.d. ný tækifæri til atvinnusköpunar og í heimavinnustöðvum þar sem unnið er yfir netið án vandkvæða og óháð staðsetningu. Möguleikar væru einnig í rafrænni stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu og fjarkennsla og nám fengju nýja vídd.

Ídrætti á ljósleiðara er lokið í Akrahreppi en þar er unnið við tengingar og styttist í að farið verði að bjóða þjónustu yfir netið. Verktaki að ídrætti og tengingum er Tengill

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir