Hlakka til að gleðja Skagfirðinga með söng
Karlakór Hreppamanna, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar, heldur tónleika í Menningarhúsinu Miðgarði á föstudaginn kemur 9. nóv. kl 20.00. Með kórnum kemur fram söngkonan Kristjana Stefánsdóttir auk þriggja manna hljómsveitar sem skipuð er einvalaliði hljóðfæraleikara, þeim Vigni Þór Stefánssyni píanóleikara, Jóni Rafnssyni bassaleikara og Erik Qvick trommuleikara.
Efnisskrá tónleikanna samanstendur af þekktum lögum úr íslenskum kvikmyndum og er tónlistin af ýmsum toga. Til að gefa hugmynd um það sem í vændum er segir Guðmundur Óli að nefna megi Sveitina milli sanda, Vegir liggja til allra átta, Stella í orlofi og Með allt á hreinu.
„Okkur þykir svo gaman að koma norður. Við syngjum í Miðgarði á föstudagskvöldið og verðum svo á Berg á Dalvík á laugardag. En ég stjórnaði lengi vel Karlakór Dalvíkur. Ég hef líka kynnst Heimismönnum, nokkrum sinnum unnið með þeim og þeir ætla að taka á móti okkur. Karlakór Hreppamann var 20 ára í fyrra en auk þeirra tímamóta ákvað kórstjórinn að segja gott og ég var ráðinn í staðinn. Hreppamenn eru þakklátir Karlakórnum Heimi fyrir að taka á móti sínum sunnlensku kollegum og hlakka til að gleðja Skagfirðinga með söng í þeirra ágæta tónleikahúsi Miðgarði,“ segir Guðmundur Óli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.