Hjónabandssæla af sérstöku tilefni

Eftirfarandi uppskriftir birtust í 7. tbl. Feykis 2009 og komu frá þeim heiðurshjónum á Sölvabakka Önnu Margréti Jónsdóttur og Sævari Sigurðssyni. Þau segja forréttinn hafa vakið mikla lukku á þeirra heimili og er grafið lamb. Reyndar er alveg eins hægt að nota hryggvöðva úr ungum ám og er það ekkert síðra.

Grafið lamb

  • 300 g lambafillet eða annað gott fitu- og sinalaust lambakjöt
  • 2 dl gróft salt
  • 1 msk sykur
  • 1 msk þurrkað blóðberg eða timian
  • 1 msk þurrkað birkilauf eða basil
  • 1 msk rósapipar
  • 1 msk hvannarótarfræ eða dillfræ
  • 1 msk sinnepsfræ
  • 1 msk rósmarín

Veltið kjötinu upp úr salti og sykri og geymið í kæli í 4 klst. Skolið þá saltið og sykurinn af með vatni. Setjið allt kryddið í mortél og myljið það lítillega. Veltið kjötinu upp úr kryddinu og geymið í kæli yfir nótt. Berið fram með t.d. vinaigrette sósu.

Aðalrétturinn eru innbakaðar folaldalundir sem eru að okkar mati algert sælgæti. Þetta hefur verið veislumatur á gamlárskvöld hjá okkur tvisvar sinnum. Það má líka nota folalda fillet, en þá verður að skera það í tvennt eftir endilöngu.

Innbakaðar folaldalundir

  • 1 pakki smjördeig
  • 700-800 g folaldalundir
  • pipar, nýmalaður
  • salt
  • 50 g smjör
  • 150 g sveppir, smátt saxaðir
  • 1 tsk rósmarín, ferskt, saxað eða ¼ tsk þurrkað
  • 100 g gráðaostur
  • 100 ml sýrður rjómi

Smjördeigið látið þiðna og ofninn hitaður í 180 gráður. Kjötið kryddað vel með pipar og salti. Smjörið brætt á pönnu og kjötið brúnað á öllum hliðum en síðan fært upp á disk. Sveppirnir steiktir við meðalhita  í 3-4 mínútur. Á meðan er osturinn mulinn í skál og sýrða rjómanum hrært saman við. Deigplöturnar lagðar á borð þannig að þær skarist ögn og þær síðan flattar út. Sveppunum hrært saman við ostblönduna og þessu smurt á smjördeigið, ekki þó út á brúnir. Kjötið lagt ofan á og pakkað inn í smjördeigið. Brúnirnar penslaðar með vatni svo þær tolli betur saman. Sett á pappírsklædda bökunarplötu eða í stórt, eldfast fat og bakað þar til deigið er gullinbrúnt og hefur blásið út. Tekið úr ofninum, látið standa í nokkrar mínútur og síðan borið fram með grænu salati og e.t.v. steiktum eða gratineruðum kartöflum.

Og svo ein hjónabandssælu uppskrift í lokin en sú var þemakaka sumarsins 2008 hér á Sölvabakka, þar sem giftum okkur í ágúst síðastliðnum.

Hjónabandssæla í ofnskúffu

  • 4 bollar hveiti
  • 4 bollar haframjöl
  • 2 bollar sykur
  • 2 egg
  • 400 g smjörlíki (brætt)
  • 2 tsk natron
  • 100 g möndluflögur
  • 100 g suðusúkkulaði
  • rabarbarasulta

Allt hnoðað saman nema rabarbarasultan og suðusúkkulaðið. Deigið sett í smurða ofnskúffu og þrýst vel niður, nema nokkrir molar sem dreift er yfir í lokin. Þá er rabarbarasultu smurt ofan á og loks deigmolunum sem skildir voru eftir dreift yfir. Bakað við 180 gráður í ca. 15-20 mínútur. Þegar kakan hefur kólnað er súkkulaðið brætt og dreift yfir hana með skeið í mjóar rendur.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir