Hjólið góða hefur verið formlega afhent
Nú í hádeginu afhenti Ásta Ólöf Jónsdóttir fötluðum í Skagafirði forláta hjól með hjólastólarampi við athöfn sem fram fór við húsakynni Iðju-hæfingar á Sauðárkróki og í kjölfarið var hjólið vígt. Það var þann 14. febrúar á þessu ári sem Ásta Ólö, áhugamaður um velferð fatlaðra, sendi frá sér fréttatilkynningu þess efnis að hún væri búin að hrinda af stað söfnun fyrir hjóli með hjólastólarampi. Hjólið sem varð fyrir valinu er þannig búið að hægt er að festa hjólastól framan á það og hjóla svo með viðkomandi um allar trissur.
Guðrún Hanna Kristjánsdóttir, forstöðumaður Skammtímavistunar, aðstoðaði Ástu við að velja hjólið en það kostaði tæpar tvær milljónir króna. Í tilkynningunni sagði Ásta þessi góðu orð „Það er kannski full mikil bjartsýni að reikna með að hjólið verði klárt fyrir 17. júní en ef svo skemmtilega vildi til þá heiti ég því hér með að vígja það sjálf íklædd íslenskum þjóðbúningi og vonandi með einhverjum kjörkuðum einstaklingi sem þyrði að vera framaná í hjólastólnum sínum.“ Og viti menn, þann 17. júní sl. var ljóst að takmarkið hafði náðst og að sjálfsögðu stóð Ásta við sín orð.
Feykir sendi Ástu nokkrar spurningar og spurði meðal annars út í hvernig söfnunin hafi gengið.
„Söfnunin gekk rosalega vel. Einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök gáfu í hana og allir tóku þessu óskaplega vel. Ég er rosalega þakklát öllum sem hafa stutt mig í þessu. Takmarkið að ná að safna fyrir 17. júní tókst en því miður þá klikkaði eitthvað í sendingunni þannig að hjólið kom seinna en áætlað var. Í dag, 3. júlí, tók ég hjólatúr (að vísu ekki langan) í þjóðbúningnum með Tinnu Rut Sigurbjörnsdóttur og skemmti hún sér mjög vel. Ég er því formlega búin að afhenda hjólið til notkunar fyrir fatlaða einstaklinga í Skagafirði.“
Það liggur því beinast við að spyrja hvað taki við, fyrir hverju á að safna næst? „Nú veit ég ekki. Er ekki best að hafa svolitla dulúð yfir því. En mér dettur ýmislegt misgáfulegt í hug og er víst þannig að ég framkvæmi stundum líka. En það er ekkert á döfinni í augnablikinu. En hver veit?“
Feykir þakkar Ástu kærlega fyrir spjallið og óskar henni til hamingju með góða söfnun og við bíðum spennt eftir því að sjá hvað hún tekur sér fyrir hendur næst. /sg
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.