Hitaveituholan á Sólgörðum bilaði

Heita vatnið hætt að renna. Mynd: Skv.is

Fyrir skömmu losnaði fóðurrör í hitaveituholu á Sólgörðum með þeim afleiðingum að heitavatnið hætti að streyma upp rörið, en kom þess í stað að hluta, upp með því.

Fyrirséð var að kalt mundi verða í sundlauginni á Sólgörðum og í þeim húsum sem tengd eru veitunni við þessar aðstæður og þetta ástand ekki á vetur setjandi, eins og stendur á vef Skv.

Eftir skoðun og vangaveltur starfsmanna ÍSOR var ákveðið að leita til Ræktunarsambands Flóa- og Skeiða um að þeir gerðu við holuna sem komu í síðustu viku með borinn „Benedikt“ og drógu gömlu 4" fóðringuna upp og boruðu nýja 7" fóðringu niður í holuna og steyptu fasta.

Þetta tókst vel og telja menn að holan sem boruð var árið 1974 muni duga mörg ár enn, en eftir lagfæringu gaf hún um 4 l/sek af 67 °C heitu vatni sem dugar vel fyrir þau not sem þarna eru.

/Skv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir