Hinn þögli meirihluti :: Leiðari Feykis
Brátt fá íbúar Húnavatnshrepps, Blönduóss, Akrahrepps og Svf. Skagafjarðar að ganga að kjörborðinu og hlutast til um framtíð síns sveitarfélags í sameiningarkosningum sem fram fara þann 19. febrúar næstkomandi. Til að koma í veg fyrir allan misskilning þá eru þessi fjögur sveitarfélög ekki að sameinast í eina sæng heldur freista samningarnefndir þess að koma Húnvetningum saman annars vegar og Skagfirðingum hins vegar.
Húnvetningar fengu að kjósa um sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu sl. vor en niðurstaðan varð sú að tillagan var felld í tveimur sveitarfélögum af fjórum, Skagaströnd og Skagabyggð meðan íbúar Blönduóss og Húnavatnshrepps samþykktu. Niðurstaðan leiddi þó ekki sjálfkrafa til þess að þau sveitarfélög sem samþykktu myndu renna saman í nýtt. Aðrar sameiningarviðræður þurftu að fara fram og gengið til kosninga á ný í kjölfarið.
Sameiningarkosningar hafa áður farið fram með ágætum árangri í sýslunni eins og hægt er að lesa sér til um. Þannig var Blönduós upphaflega í tveimur sveitarfélögum þar sem byggðin sunnan ár tilheyrði Torfalækjarhreppi en norðan ár Engihlíðarhreppi. Árið 1914 var svo Torfalækjarhreppi skipt og byggðin sunnan ár varð að sérstökum hreppi, Blönduóshreppi. Þann 1. febrúar 1936 var byggðin norðan ár svo sameinuð afganginum af kauptúninu. Hreppurinn varð bæjarfélag 4. júlí 1988 og kallaðist þá Blönduósbær og hélst það nafn áfram við sameiningu við Engihlíðarhrepp 9. júní 2002.
Húnavatnshreppur varð hins vegar til 1. janúar 2006 við sameiningu Bólstaðarhlíðar-, Sveinsstaða-, Svínavatns- og Torfalækjarhrepps sem samþykkt var í sameiningarkosningum sveitarfélaga 20. nóvember 2004. Á Wikipedia kemur m.a. fram að hinn 11. mars 2006 hafi svo verið samþykkt í kosningum í Húnavatnshreppi og Áshreppi að sameina þá undir nafni Húnavatnshrepps og gekk sú sameining í gildi 10. júní það ár að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
Sveitarfélagið Skagafjörður varð til 6. júní 1998 við sameiningu ellefu sveitarfélaga í Skagafirði: Skefilsstaðahrepps, Sauðárkrókskaupstaðar, Skarðshrepps, Staðarhrepps, Seyluhrepps, Lýtingsstaðahrepps, Rípurhrepps, Viðvíkurhrepps, Hólahrepps, Hofshrepps og Fljótahrepps en íbúar höfðu samþykkt sameininguna í kosningum 15. nóvember árið áður. Akrahreppur var eina sveitarfélagið í firðinum sem ákvað að vera ekki með.
Hvernig sem fer þann 19. febrúar þá bíða aðrar kosningar handan hornsins þegar kosið verður til sveitarstjórna. Ég tek hatt minn ofan fyrir öllu því fólki sem gefur sig fram í þá miklu vinnu sem því fylgir að sitja í sveitarstjórnum eða hreppsnefndum. Það er stundum sagt að hálfvitarnir veljist til starfa en sérfræðingarnir sitji heima og skammist á kaffistofunum eða á Facebook.
Svo er það hinn þögli meirihluti sem lætur sér fátt um finnast en það er í rauninni hann sem öllu ræður með þátttöku sinni í kosningum. Þess vegna langar mig til að hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn. Láttu ekki einhvern annan velja fyrir þig!
Góðar stundir
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.