Heru Björk og Kristjáni Gísla spáð góðu gengi
Nú fer að líða að Júróvisionkeppninni sívinsælu en þau Hera Björk og Skagfirðingurinn Kristján Gíslason syngja framlag Íslands ásamt fjórum öðrum úrvals söngvurum. Lagið er númer 16 í röðinni í kvöld en því er spáð góðu gengi í keppninni.
Þegar blaðamaður hafði samband við Kristján um klukkan 17 í dag var hópurinn að ganga eftir rauða dreglinum fyrir ljósmyndarana. Að sögn Kristjáns hvíldi hópurinn sig vel í dag en ansi mikil keyrsla hefur verið á liðinu undanfarna daga. Í morgun var lokaæfing fyrir keppnina sem tókst vel að sögn Kristjáns og var þeim vel tekið af þeim 13 þúsund manns sem fylgdust með. Í kvöld er svo búist við um 20 þúsund áhorfendum og aðspurður hvort spenna sé ekki farin að gera vart við sig segir Kristjan að nú séu að byrja að koma fiðrildi í magann.
þegar Kristján var spurður um úrslitaspá sagði hann það erfitt en hann væri persónulega hrifinn af gríska laginu og því franska en hann vonaði að Ísland hefði þetta.
Aðspurður hvort það yrði þá ekki eitt af stóráföllum íslenska efnahagsins að þurfa að halda keppnina að ári sagði Kristján vongóður: „Við fáum hjálp frá Norðurlöndunum“.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.