Herra Fúll ætlar ekki á kjörstað
„Trúir þú þessu í alvöru?“ spurði vinnufélagi minn þegar ég sýndi honum stefnumálin mín – m.a. alla ráðherra utan Alþingis og upprætum flokksræði – í upphafi kosningabaráttunnar. Eða kosningahvatningarinnar, öllu heldur, sem er orð sem mér hugnast betur. Ég vissi ekki hverju ég átti að svara. Trúi ég þessu eins og boðorðunum 10? „Trúir þú á breytingar?“ spurði hann þá.
Tja, breytingar eiga sér stað í sífellu þótt þær séu ekki alltaf okkur að skapi. En oft getum við haft áhrif á breytingar og séð til þess að þær verði til góðs. Nú gefst okkur tækifæri til að hafa áhrif á breytingar í stjórnsýslunni með því að kjósa fulltrúa okkar á stjórnlagaþing. Þetta gæti orðið okkar eina tækifæri til að hafa áhrif á stjórnarskrárbreytingar með beinu lýðræði. Ég trúi því að ég geti haft áhrif á breytingar og að kjósendur geti það sömuleiðis, en aðeins ef þeir nýta sér atkvæðisréttinn. Vinnufélagi minn, hins vegar, trúir á stöðnun. Hann ætlar að sitja heima, tuða yfir ástandinu – en um leið sætta sig við það – og sleppa því að vera þátttakandi í lífinu.
Ég tók þátt í því að stofna hvatningarhóp frambjóðenda, sem hefur það markmið að vekja athygli á mikilvægi stjórnlagaþingsins og hvetja fólk til þess að kjósa 27. nóvember næstkomandi. Talsmaður okkar, Fjalar Sigurðarson, sem er ekki í framboði sjálfur, hefur komið fram í hinum ýmsu fjölmiðlum í þeim tilgangi. Hópurinn hefur einnig látið gera bráðskemmtilegar skopmyndir af Herra Fúlum, sem ætlar ekki að kjósa og réttlætir þá ákvörðun sína með bjánalegum rökum, eins og: „Huh, þetta eru nú bara kverúlantar í framboði!“ (það eru fleiri fúlir karlar á vefsíðunni kjostu.org).
Það eru 525 í framboði til stjórnlagaþings, sem endurspeglar áhuga þjóðarinnar á þessum sögulega viðburði. Frambjóðendur og kjósendur eru flestir sammála mikilvægi þess að aðskilja framkvæmda- og löggjafarvald betur, t.d. með því að koma í veg fyrir að ráðherrar séu líka þingmenn. En fólk hefur líka ýmis önnur umdeildari stefnumál, t.d. kjördæmaskiptingu. Hvort sem þið viðjið gera landið að einu kjördæmi eða ekki, ættuð þið að finna frambjóðendur að ykkar skapi.
Heyrst hefur utan af landi að kosningarnar varði bara Reykvíkinga. Hvernig má það vera? Við erum öll þegar þessa samfélags og í kosningunum hafa atkvæði okkar allra jafn mikið vægi. Stjórnarskráin hlýtur að varða okkur öll. Ég er að norðan þótt ég búi í Reykjavík. Skiptir það máli? Ég held við ættum öll að vinna saman og kjósa á laugardaginn til að sjá til þess að fjölbreyttur hópur frambjóðenda komist á þing.
Eftir Eygló Svölu Arnarsdóttur, frambjóðanda nr. 3854.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.