Hér rekur allt nema þurrar eldspýtur
Ýmislegt rekur á fjörur á Skaga eða eins og einu sinni var haft eftir Ingólfi á Lágmúla í Feyki þegar hann fann flöskuskeyti "hér rekur allt nema þurrar eldspýtur!!"
Of mikið er reyndar að segja að kajakræðarinn sem tók land á Hrauni í gær hafi rekið að landi, þvert á móti kom hann að eigin rammleik og einungis til að leita sér að tjaldsvæði yfir nóttina. John Peaveler er bandarískur ævintýramaður sem býr í Kúvæt en lagði upp í róður umhverfis Ísland nú í byrjun júní. Fyrstu áfangana fylgdu honum íslenskir ræðarar, en frá Hólmavík hefur hann verið einskipa. Í morgun var veðrið honum óhagstætt, norðan steytingur og talsverð kvika svo ekki gaf á sjó. Notaði hann daginn til að hvíla sig og hjálpa heimafólki í hrossastússi. John heldur úti heimasíðu þar sem hægt er að fylgjast með ferðum hans og öðru því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur, en dags daglega rekur hann dýraathvarf í Kúvæt. http://www.johnpeaveler.com/
Myndirnar tók Jófríður Jónsdóttir en fréttina sendi Gunnar Rögnvaldsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.