Helgihald í Skagafjarðarprestakalli um jól og áramót

Gamli bærinn í Glaumbæ jólalegur í snjónum.MYND.ÓAB
Gamli bærinn í Glaumbæ jólalegur í snjónum.MYND.ÓAB

Allt er breytingum háð, helgihald í Skagafirði um þessi jól og áramót er með eilítið breyttu sniði þetta árið. Messum hefur fækkað talsvert enda gefur auga leið að ekki er hægt að halda óbreyttum hætti með færra fólk í brúnni. Jólin eru hátíð ljóss og friðar og kirkjan á sérstakan stað í hjörtum margra sérstaklega á jólunum. Jólasálmarnir eru hver öðrum fallegri og hátíðarsvörin sungin sem gefur stundinni einstakt og hátíðlegt yfirbragð. Kyrrðin í kirkjunni á jólunum er eitthvað alveg sérstök.

Á aðfangadegi jóla 24. desember verða þrjár messur í prestakallinu. Séra Halla Rut Stefánsdóttir verður með aftansöng í Hofsóskirkju eins og verið hefur kl.18:00 og organisti Jóhann Bjarnason. Séra Sigríður Gunnarsdóttir verður með aftansöng í Sauðárkrókskirkju kl:18:00 og organisti þar er Rögnvaldur Valbergsson. Sú breyting hefur verið gerð að miðnæturmessan í Sauðárkrókskirkju verður ekki líkt og undanfarin ár. Aftansöngur verður svo að þessu sinni að Löngumýri kl:21:30 þar sem séra Gísli Gunnarsson þjónar og Rögnvaldur Valbergsson leikur á orgel. Aftansöngvar sem verið hafa í Víðimýrar og Glaumbæjar kirkjum á aðfangadag verða ekki.

Á jóladag 25. desember verða þrjár hátíðarguðsþjónustur í prestakallinu. Allar klukkan 14:00. Séra Gísli Gunnarsson og Jóhann Bjarnason organisti verða í Hóladómkirkju. Séra Halla Rut Stefánsdóttir og Sveinn Árnason organisti í Miklabæjarkirkju og séra Sigríður Gunnarsdóttir og Rögnvaldur Valbergsson organisti í Sauðárkrókskirkju.

Annan dag jóla 26. desember verða fjórar jólamessur. Séra Halla Rut Stefánsdóttir og Jóhann Bjarnason organisti í Barðskirkju kl:13:00. Séra Sigríður Gunnarsdóttir og Rögnvaldur Valbergsson organisti á Dvalarheimilinu á Sauðárkróki kl:14:00. Þau verða svo í Hvammskirkju kl:16:00. Séra Gísli Gunnarsson og Sveinn Árnason organisti verða í Goðdalakirkju kl:14:00.

Gamlársdagur 31. desember bíður uppá tvær messur. Aðra í Glaumbæjarkirkju sem verið hefur hjá séra Gísla Gunnarssyni og hefst hún kl:14:00. Séra Sigríður Gunnarsdóttir með aftansöng í Sauðárkrókskirkju kl:17:00. Organisti gamlársdags verður Rögnvaldur Valbergsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir