Heima er best í Skagafirði

Þegar ég velti upp ástæðunum fyrir því af hverju ég ákvað að slá til og taka sæti á lista VG og óháðra í Skagafirði kemur ýmislegt upp í hugann. Tilhugsunin um að geta verið partur af því að gera mína heimabyggð að ákjósanlegri stað til að búa á er spennandi, þar sem möguleikarnir eru endalausir.

Ég trúi því að þar sem er góður kjarni, safnast að gott fólk og gerir góðan stað enn betri. Skagafjörður hefur alltaf verið mér kær og finnst mér ekkert skemmtilegra en þegar ég heyri af verkefnum sem hafa gengið vel á svæðinu. Og síðast en ekki síst, ég er móðir, ég vil leggja mitt af mörkum þannig að í framtíðinni, mun dóttir mín vilja búa í Skagafirði þar sem það er ákjósanlegur staður til að búa á.

Þegar ég flutti suður 20 ára gömul stúdína á leið í háskólanám fannst mér allir vegir færir, var spennt að búa í Reykjavík, prófa að standa almennilega á eigin fótum og byrja að búa með kærastanum, honum Val. Ég valdi mér félagsfræði í Háskóla Íslands þar sem það er nám sem býður upp á marga möguleika og einskorðar mig ekki við einhvern einn vettvang, en ég verð að hafa mörg járn í eldinum til að geta notið mín. Ég var í stjórn nemendaráðs alla mína skólagöngu, á fyrsta ári var ég fulltrúi nýnema, annað árið formaður félagsins og á lokaárinu var ég í nefnd ásamt tveimur öðrum nemendum og nokkrum kennurum félagsvísindasviðs í að endurskoða námsskrána og það námsframboð sem var til staðar, sem var afskaplega skemmtileg vinna.

Að loknu námi fékk ég góða vinnu og það er ekki hægt að segja annað en að okkur hafi liðið rosalega vel fyrir sunnan. Samt sem áður fórum við alltaf heim þegar við kíktum norður yfir heiðina, því að Skagafjörður var okkar heima. Það var því ekki spurning í okkar huga þegar Val unnusta mínum bauðst vinna á Sauðárkróki eftir sína útskrift, að við ætlum að flytja aftur heim, slíkt var aðdráttaraflið í fjörðinn fagra.

En þetta aðdráttarafl er ekki sjálfsagður hlutur, við verðum að hlúa að því. Við megum ekki gleyma því hvað við erum heppin að eiga þennan stað sem Skagafjörður er. Við megum ekki skemma aðdráttaraflið með virkjum Jökulsánna eða þvera Skagafjörð með háspennulínum í stað þess að leggja slíkar línur í jörðu. Við verðum að hugsa um börnin okkar og nærumhverfi þeirra, því án þeirra væri ekkert samfélag. Við verðum að hlúa að öllum byggðum svæðisins og vinna saman að því. Þó svo að hlutirnir gangi ekki upp í fyrstu tilraun þýðir ekki að stoppa og hætta. Við erum alltaf að þroskast og læra, galdurinn er að gefast ekki upp. Það er ástæða fyrir því að WD40 (já, olían) heitir ekki WD1, stundum taka góðir hlutir tíma. Með opnum huga og áræðni getum við gert Skagafjörð að ákjósanlegasta staðinn á landinu, en við verðum líka að gera það saman.

Að lokum langar mig að hvetja ykkur öll til að koma við á kosningaskrifstofu okkar á Skagfirðingabraut 45 til að hitta okkur og kynnast, koma ykkar hugmyndum á framfæri, því þær skipta máli fyrir okkur öll.

Lilja Gunnlaugsdóttir, 16. sæti VG og óháðra í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir