Heim til Hóla

Mér hefur lengi fundist að Landsmót hestamanna ætti hvergi betur heima en á Hólum í Hjaltadal; að því hníga m.a. þessi rök: aðstæður eru að stærstum hluta til staðar, nábýlið við Háskólann á Hólum, sem býður upp á nám í reiðmennsku og reiðkennslu, en þetta samstarf mun vonandi styrkja starf skólans og tryggja hann í sessi, saga staðarins fyrr og nú svo ekki sé minnst á fjallhringinn sem umlykur Hjaltadalinn.

Landsmót hefur, í gegnum tíðina,  verið fjöregg okkar hestamanna, í senn menningarviðburður og gleðisamkoma þar sem allir, sem unna íslenska hestinum, hafa getað komið saman og notið stundarinnar, þannig þarf það að vera áfram.

Það er tímabært að sest verði á rökstóla og viðburðurinn Landsmót skoðaður ofan í kjölinn. Hvernig viljum við sjá fyrir okkur Landsmót hestamanna í framtíðinni, erum við sátt við það eins og það er eða er ástæða til að stokka spilin upp á nýtt. Hafa þarf í huga að umgjörð og innihald sé þeirrar gerðar að Landsmót höfði til fjöldans, án fólksins er viðburðurinn lítils virði. Það dregur skammt að stilla upp fremstu leikurum þjóðarinnar á fjölum Þjóðleikhússins ef leikverkið höfðar ekki til fólksins, þá fellur sýningin.

Það er tímabært að slíðra sverðin, hætta karpi um staðarval og huga að því sem skiptir máli, landsmótinu sjálfu.

Skagfirðingar munu bjóða hestamenn sem og aðra velkomna til Landsmóts á Hólum 2016.

Ingimar Ingimarsson
Ytra-Skörðugili

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir