Heilsugæslan á Norðurlandi
Kómedíuleikhúsið á Ísafirði er í leikferð um Norðurland núna í janúar. Í kvöld, 21. janúar, verður Heilsugæslan sýnd á Mælifelli á Sauðarárkróki og hefst sýningin kl.20.30. Hápólitíski gamanleikurinn Heilsugæslan hefur notið fádæma vinsælda og hefur leikurinn nú verið sýndur um 30 sinnum víða um landið. Viðtökur hafa verið geðveikt góðar og er stefnan sett á að sýna Heilsugæsluna um land allt.
Kómedíuleikhúsið er fyrsta atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum en það var stofnað árið 1997 af Elfari Loga Hannessyni og Róberti Snorrasyni.
Á heimasíðu Kómedíuleikhússins segir um leikverkið: -Íslendingar hafa löngum státað af besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við hrósum okkur yfir háum meðalaldri, þjónustu í hæsta gæðaflokki og frábærum læknum. En er kerfið eins gott og af er látið? Er það hugsanlega farið að vinna gegn tilgangi sínum? Er aukinni eftirspurn sjúkdóma svarað með meira framboði? Hvaða tilgangi þjónar góð heilsa? Metum við líf í magni eða gæðum? Leikritið, Heilsugæslan, er samið af lækni, Lýð Árnasyni, og gefur áhorfandanum sýn inn í þetta völundarhús og það sem býr að tjaldabaki.
Heilsugæslan er gamanleikur og öll hlutverk í höndum tveggja leikara, þeirra Elfars Loga Hannessonar og Margrétar Sverrisdóttur. Heilsugæslan er hápólitískt leikrit og umfjöllunarefnið brennandi á íslenzku þjóðfélagi, ekki sízt núna, í skugga niðurskurðar. Heilsugæslan fyrir alla!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.