Hefur tamið sér varkárari vinnubrögð en aðrar fjármálastofnanir
Á ársfundi Byggðastofnun sem fram fór í Skagafirði á dögunum kom fram að stofnunin þarf að vera viðbúin og taka frumkvæði í þeim breytingum sem yfirvofandi eru í samfélaginu vegna samdráttar. Tap Byggðastofnunnar á árinu 2009 var um 3 milljarðar en þetta mikla tap á rekja til hruns bankanna.
Í ræðu Aðalsteins Þorsteinssonar forstjóra Byggðastofnunnar kom fram að stofnunin starfar ef svo má segja á útjaðri íslensks lánamarkaðar, almennt á eftir bönkunum í veðröð, með meiri áhættu. Það er því ljóst að gjaldþrot bankakerfisins veldur Byggðastofnun miklum vanda. Þá sagði Aðalsteinn að langstærsti orsakavaldur þeirrar niðurstöðu sem kynnt,var að aðalfundi sé framlög í afskriftarreikning á árinu upp á 3,7 milljarða. – Fall fjármálakerfisins hefur valdið Byggðastofnun miklum búsifjum, og nemur beint tap stofnunarinnar á undanförnum 2 árum vegna gjaldþrots banka og sparisjóða eitt og sér rétt tæpum 2 milljörðum króna. Er þar um að ræða annars vegar útlánatap vegna lána til landsbyggðarsparisjóðanna, og tap á innistæðum á peningamarkaðsreikningum. Jákvæðu fréttirnar eru þó þær að hreinar vaxtatekjur stofnunarinnar hækka á milli ára um 225 mkr, og að tekist hefur að lækka rekstrarkostnað eins og mælt var fyrir um.
Í skýrslu ríkisendurskoðanda um ársreikninga Byggðastofnunnar segir ; „svo virðist sem Byggðastofnun hafi tamið sér varkárari vinnubrögð við lánveitingar heldur en ýmsar fjármálastofnanir á undanförnum árum. Þannig veitti hún aðeins lán til svokallaðra ,,rekstrarfélaga“ en ekki til eignarhalds- og fjárfestingarfélaga. Lán stofnunarinnar voru veitt til að standa undir kaupum á fasteignum, áhöldum og tækjum til atvinnurekstrar viðkomandi aðila og í nokkrum tilvikum til að breyta óhagstæðum skammtímaskuldum í lengri lán. Ekki tíðkaðist að veita lán til kaupa í beinu fjárfestingaskyni á hlutabréfum og fasteignum. Þá er ekki ósennilegt að það verklag Byggðastofnunar að leggja strax við lánveitingu mat á útlánaáhættu (og færa þá framlag á afskriftareikning) geri það að verkum að starfsmenn hennar hafi verið meira vakandi fyrir slíkri áhættu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.