„Hefði ekki getað hugsað mér betra sumarfrí“
„Það voru rúmlega þúsund skráðir þátttakendur og það má áætla að það hafi verið um 6000 manns á svæðinu um [verslunarmanna]helgina,“ segir Pálína Ósk Hraundal, verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fór á Sauðárkróki um verslunarhelgina, en mótið tókst með eindæmum vel og spiluðu margir þættir þar inn.
„Mótið gekk mjög vel, meira að segja veðrið var með okkur í liði. Það var dásamlegt að sjá brosandi andlit alls staðar, fjölskyldur að skemmta sér og allt á iði,“ segir Pálína en hún mætti í Skagafjörðinn frá Noregi til að vinna við mótshaldið og njóta þess að sjá og upplifa ávöxt vinnunnar.
Pálína vann undir stjórn Ómars Braga Stefánssonar, framkvæmdastjóra Landsmóta UMFÍ, sem er endalaus hugmyndabrunnur og framkvæmdafíkill þegar kemur að viðburðahaldi – enda er hann nú þegar stokkinn í næsta verkefni sem er umdæmisþing Rótarý-hreyfingarinnar á Íslandi sem fram fer á Sauðárkróki dagana þess dagana.
„Mér fannst margt standa upp úr,“ segir Pálína þegar hún er spurð út í hvað hafi heppnast best á mótinu. „Í skipulaginu þá var unnið hörðum höndum að alls konar smáatriðum og væntumþykjan fyrir verkefninu sjálfu verður mikil. Þannig að það er erfitt að gera upp á milli, mér fannst margt ná að dafna vel þessa helgi og geggjað að sjá hvað heimamenn komu sterkt inn og hjálpuðu til á öllum vígstöðum. Róbert Óttarsson bakari náði að ljúka síðustu keppninni með stæl með svakalegri kynningu á kökuskreytingarkeppninni. Við slökktum ljósin, létum ljósin blikka á hann og spiluðum hádramatíska tónlist. Róbert spilaði svo vel með og bauð alla velkomna í Síkið. Í þessari keppni voru 350 manns og stúkan full af áhorfendum. Öll svona smáatriði standa alltaf upp úr og stemn-ingin gríðalega mikil.“
Var eitthvað sem kom þér á óvart? „Nei í raun og veru ekki þannig séð. Kannski flugelda-sýningin ef ég á að nefna eitthvað. Við vorum búin að vera á kafi í alls konar skipulagi og flugeldasýningin var löngu tilbúin. Þannig að ég var ekki mikið inni í þeim þætti mótsins. Þegar byrjað var að skjóta upp flugeldunum þá gerði ég mér strax grein fyrir því að þessi sýning yrði eftirminnileg fyrir alla. Hún var alveg stórkostleg!“
Voru gestirnir ánægðir með komuna? „Já ég hef ekki heyrt neitt annað nema bara jákvæðni og gleði. Unglingalandsmótin eru bestu mót í heimi þegar hugað er að forvarnastarfi, lýð-heilsu, ungmennafélagsanda og jákvæðni. Við leggjum mikið á okkur til þess að gestir njóti þessara þátta og ég held að það hafi tekist nokkuð vel.“
Gekk vel að fá sjálfboðaliða til starfa? „Heldur betur, ég held að Skagfirðingar séu með einstakt viðhorf hvað varðar sjálfboðaliðastarf. Það voru allir í stakk búnir að aðstoða okkur og upplifði ég gríðalega jákvæðni fyrir mótið með það. Meira segja í fráganginum þá voru þreyttir sjálfboðaliðar mættir með bros á vör til að aðstoða okkur að ganga frá nánast óumbeðin. “
Er ekki þreytandi að vinna með Ómari Braga [spyr Feykir í gríni]? „Nei, heldur betur ekki,“ segir Pálína brosandi. „Ómar Bragi er fyrirmynd í viðburðastjórnun og kann hvert einasta atriði upp á 10 hvað varðar þessi mót. Ég læri mikið af honum sjálf. Hann býr yfir mikilli seiglu, dugnaði og gleði fyrir ungmennafélagsstarfi. Það er alltaf mjög hvetjandi og gefandi að vera í kringum þannig fólk.“
Hvernig er tilfinningin eftir svona törn, hvað gefur svona vinna þér? „Hún er geggjuð! Ég hef mikla ástríðu fyrir lýðheilsu ungmenna, viðburðastjórnun og að vinna að samfélagslegum verkefnum sem eru umvafin gleði, forvörnum og jákvæðni. Unglingalandsmótin eru byggð upp á því og þegar verkefnin ganga svona vel eins og núna þá er það besta tilfinning í heimi. Ég notaði sumarfríið mitt í mótið og hefði ekki getað hugsað mér betra sumarfrí en þetta,“ segir kampakát Pálína Ósk að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.