Haukar sigraðir í hörkuleik í baráttunni um 3. sætið
Haukar í Hafnarfirði tóku á móti liði Tindastóls á Ásvöllum í gærkvöldi og er óhætt að fullyrða að leikurinn hafi tekið á taugarnar. Engu að síður var lið Tindastóls yfir frá fyrstu körfu til hinnar síðustu. Jasmin Perkovic átti sinn besta leik fyrir Stólana en kappinn gerði 13 stig og hirti 14 fráköst, helmingi fleiri en Flenard Whitfield í liði Hauka. Döpur hittni af vítalínunni átti stóran þátt í tapi heimamanna en lokatölur leiksins voru 76-79 fyrir Tindastól eftir æsilegar lokamínútur.
Liðunum gekk hálf brösuglega að koma boltanum í körfuna fyrstu mínúturnar og staðan 11-14 að loknum fyrsta leikhluta. Simmons átti ágætan sprett fyrir Stólana en það var Hannes sem setti fyrsta þrist leiksins snemma í öðrum leikhluta þrátt fyrir að bæði lið hafi fram að því verið búin að senda nokkrar langdrægar flaugar sem fundu hinsvegar ekki skotmarkið. Í kjölfarið fylgdi góður kafli Tindastólsliðsins sem komst í 13-26 en þá vöknuðu Haukar, með þá Kára Jóns og Emil Barja fremsta í flokki, til lífsins á ný. Munurinn þó yfirleitt þetta tíu til fimmtán stig og það voru heimamenn sem gerðu síðustu fjögur stigin í fyrri hálfleik og komu sér þar með aðeins betur inn í leikinn. Staðan 31-42.
Haukar gerðu fyrstu stig síðari hálfleiks og minnkuðu muninn í sjö stig en þá kom frábær kafli Stólanna sem gerðu ellefu stig í röð. Eftir þrist frá Perkovic var staðan 38-56, átján stiga munur, og þá þótti Israel Martin, þjálfara Hauka, nóg komið. Hann tók leikhlé og upp frá því skelltu Hafnfirðingar í lás í vörninni og þeir svöruðu með 11-0 kafla á næstu tveimur og hálfri mínútu. Þá loks komust Stólarnir á blað á ný og staðan 55-62 fyrir Tindastól fyrir lokafjórðunginn. Haukur Óskars setti þrist í byrjun fjórða leikhluta og uppfrá því var leikurinn æsispennandi og baráttan í öndvegi. Eftir þrist frá Kára Jóns minnkaði Gerald Robinson muninn í tvö stig þegar hann setti annað vítið sitt niður en Haukum voru mislagðar hendur á línunni, settu aðeins niður 14 af 24 vítum sínum í leiknum á meðan Stólarnir hittu 12 af 13 skotum sínum.
Mörgum þótti sem Haukar fengju að spila ansi fast á Stólana á þessum kafla án þess að fá villur og mótlætið fór nokkuð í taugar Tindastólsmanna. Strákarnir bognuðu en brotnuðu ekki og Bilic gerði næstu fjögur stigin en þristur frá Kára Jóns minnkaði muninn á ný í tvö stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þá lagði Bilic boltann í körfuna en Hjálmar Stefáns svaraði að bragði. Geiger bætti við tveimur vítum og jók muninn í fjögur stig þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Emil Barja hélt Haukum inni í leiknum með 2 stiga stökkskoti og Haukar voru snöggir að brjóta á Geiger. Hann setti niður fyrra vítið sitt en klikkaði á því síðara, Kári fékk boltann og reyndi skot frá miðlínu en það klikkaði. Lokatölur því 76-69 og lið Tindastóls eitt í þriðja sæti deildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir.
Jasmin Perkovic hefur ekki alveg slegið í gegn hjá stuðningsmönnum Tindastóls en hann átti frábæran leik í gær og hefur Baldur Þór þjálfari tröllatrú á honum. Hann endaði sem fyrr segir með 13 stig og 14 fráköst og að auki átti hann þrjár stoðsendingar. Sinisa Bilic var með 16 stig, Geiger 12 stig, Simmons 11, Brodnik 10 og Pétur 8. Í lið Hauka var Kári bestur en hann gerði 22 stig, tók fimm fráköst og átti átta stoðsendingar. Whitfield gerði 21 stig og tók sjö fráköst en Emil Barja gerði 11 stig og tók átta fráköst.
Nú tekur við bikarvika þar sem Stólarnir mæta liði Stjörnunnar á miðvikudaginn og með sigri kemst liðið í sjálfan úrslitaleikinn. Síðan tekur við landsleikjahlé og þann 1. Mars hefst lokakafli Dominos-deildarinnar en fjórar umferðir eru eftir. Það er lið Fjölnis sem mætir þá í Síkið. Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.