Hamingjan er harður húsbóndi - Leiðari Feykis
Alþjóða hamingjudagurinn var víða haldinn hátíðlegur sl. mánudag, þann 20. mars, sem vildi svo vel til að hitti á vorjafndægur að vori en þá er sól beint yfir miðbaug jarðar og dagur og nótt þá jafnlöng um alla jörð. Þá er eitt víst að þá fer daginn að lengja með aukinni hamingju flestra. Þennan sama dag var opinberað að Íslendingar væru þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi samkvæmt alþjóðlegri hamingjuskýrslu Gallup. Það eru Finnar sem reynast hamingjusama þjóðin og nágrannar þeirra Danir koma næstir.
Frá árinu 2013 hafa Sameinuðu þjóðirnar haldið upp á þennan hamingjudag sem leið til að beina kastljósi að málefninu og benda á mikilvægi hamingjunnar í lífi hvers og eins um allan heim. Hamingja er grundvallarmarkmið mannsins, segir á vef Sameinuðu þjóðanna sem settu alls 17 sjálfbær þróunarmarkmið, Heimsmarkmiðin, og voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja þess í september árið 2015.
Markmiðin 17, sem gilda til ársins 2030, eru með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum, segir á heimasíðu Heimsmarkmiðanna. Aðalsmerki þeirra er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.
Segja má að með heimsmarkmiðunum sé leitast við að binda enda á fátækt, draga úr ójöfnuði og vernda plánetuna sem fóstrar okkur; þrír lykilþættir sem leiða til vellíðanar og hamingju.
En hver skyldu svo þessi markmið vera? Þau eru m.a. að finna á vefslóðinni heimsmarkmidin.is og eru: Engin fátækt, ekkert hungur, heilsa og vellíðan, menntun fyrir alla, jafnrétti kynjanna, hreint vatn og hreinlætisaðstaða, sjálfbær orka, góð atvinna og hagvöxtur, nýsköpun og uppbygging, aukinn jöfnuður, sjálfbærar borgir og samfélög, ábyrg neysla og framleiðsla, aðgerðir í loftslagsmálum, líf í vatni, líf á landi, friður og réttlæti og að endingu samvinna um markmiðin.
Það að Íslendingar séu mældir svo ofarlega í hamingjunni gæti komið mörgum á óvart miðað við dægurþrasið og einskins verða umræðuna sem tröllríður þjóðfélaginu í öllum miðlum. Niðrandi ummæli um fólk og gjörðir þeirra sem reyna að betrumbæta samfélagið eru mun meira áberandi en hið jákvæða og á stundum virðist allt vera á leið til andskotans.
Sem betur fer er raunin önnur. Á Íslandi er gott að búa og allir hafa möguleikann á því að hafa það gott. Margir segja að einhverjir hafi það betra en aðrir en er það svo vont. Það er hins vegar vont ef einhverjir hafa það skítt, hvernig sem sú mæling er framkvæmd, og þá ber okkur að rétta fram hjálparhönd. En það má enginn halda að það sé hægt að feta æviveginn án þess að hafa fyrir því. Lífið er eitt stórt krefjandi verkefni og ef maður leysir það farsællega og af heiðarleika fær maður umbun erfiðisins. Í því felst hamingjan!
Góðar stundir!
Páll Friðriksson, ritstjóri
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.