Halldór, Viggó, Jói Áka og Jói Sigmars stíga til hliðar

Feyki hefur borist tilkynning frá Halldóri Halldórssyni, Viggó Jónssyni, JóhanniIngólfssyni og Jóhanni Sigmarssyni en þeir félagar hafa undanfarin ár borið hitann og þungann af rekstri körfuknattleiksdeildar Tindastóls en hafa nú ákveðið að stíga til hliðar.
Erindi þeirra má lesa hér;
Kæru Skagfirðingar og körfuknattleiksáhugamenn!
Eftir langa veru í stjórn körfuknattleiksdeildar höfum við félagarnir ákveðið að láta hér staðar numið í stjórnunarstörfum fyrir deildina. Eftir langa setu í stjórn erum við á þeirri skoðun að nú sé rétt að hleypa nýjum aðilum inn þó fyrr hefði verið.
Starfið hefur þróast í gegn um tíðina á þann veg að vinnan hefur lent á höndum fárra aðila sem er ekki gott. Hins vegar er vel hægt að fá fleiri að starfinu, með því að hluta verkefnin niður og færa ábyrgð þeirra yfir á fleiri aðila þannig að enginn þurfi að drukkna í sinni sjálfboðavinnu.
Mestur tíminn fer venjulega í að afla fjármagns fyrir starfsemina, en nú hin seinni ár hefur það gengið vel og körfuknattleiksdeildin skilað góðum rekstri. Við eigum hér góða styrktaraðila sem komið hafa myndarlega að starfseminni og við höfum náð að sinna fjáröflunarverkefnum sem gefið hafa okkur tekjur.
Körfuknattleiksdeildin er skuldlaus, en þessa dagana er verið að loka rekstri síðasta tímabils og lítur það vel út.
Barna- og unglingstarf körfuknattleiksdeildarinnar er og hefur verið á höndum sérstaks unglingaráðs síðan 2007 og hefur sú rekstrarlega skipting komið einstaklega vel út og skilað sér í fjölgun iðkenda og fleiri foreldrum sem tilbúnir eru að leggja starfinu lið. Einnig er árangur yngri flokkanna eftirtektarverður, því af sjö yngri flokkum sem sendir voru í Íslandsmót í vetur kláruðu 5 af þeim mótið í A eða B-riðlum og unglingaflokkur karla er kominn í fjögurra liða úrslitakeppni í Íslandsmótinu.
Meistaraflokkurinn komst í úrslitakeppnina í fyrsta skiptið í vetur síðan 2004 og var það kærkominn árangur. Félagið á nú stóran hóp heimamanna, bæði reyndra og yngri leikmanna, sem mynda góðan kjarna í leikmannahópnum og fyrirsjáanlegt er að upp úr yngri flokkunum komi fjöldi leikmanna á komandi árum, þar sem vel hefur verið haldið á spilunum í uppbyggingunni þar undanfarin ár. Þá er útlit fyrir að hægt verði að tefla fram meistaraflokki kvenna eftir 2-3 ár, en stelpurnar hafa verið í mikilli sókn undanfarið og náð góðum árangri.
Að starfa í rekstri körfuknattleiksdeildarinnar er í senn gjöfult og skemmtilegt þó það geti verið krefjandi stundum. Það eru ófá handtökin sem þarf að vinna til að halda hlutunum gangandi. Hér gildir hið fornkveðna að margar hendur vinni létt verk. Hægt er að búta starfið niður í mörg verkefni þar sem hver og einn getur tekið að sér eitt lítið, en saman verða mörg lítil verk að einu stóru og það er akkúrat það sem þarf.
Þrátt fyrir að við teljum hér nóg komið af setu í stjórn körfuknattleiksdeildarinnar höfum við fullan hug á að taka að okkur eitt af þessum smáu verkefnum og halda áfram að leggja starfinu lið þó við hverfum úr framlínunni.
Það hlýtur að finnast ung og sprækt fólk sem áhuga hefur á að taka við keflinu og halda áfram að byggja hér upp og hlúa að körfuknattleiksíþróttinni. Við eigum lið í efstu deild og það skiptir samfélagið hér miklu máli og á sinn þátt í því að halda okkur inni á kortinu á Íslandi.
Við viljum að lokum þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa stutt við bakið á okkur í gegn um tíðina. Bæði þeim ófáu einstaklingum sem unnið hafa með okkur, sem og fjölda fyrirtækja og styrktaraðila, en án þeirra gengur starf af þessu tagi ekki upp. Síðan eru það leikmenn og þjálfarar sem við höfum starfað með sem við viljum þakka og okkar frábæru stuðningsmönnum, sem við vonumst til að körfuboltamenn eigi eftir að skemmta sem aldrei fyrr í framtíðinni.
Með körfuboltakveðju,
Halldór Halldórsson
Viggó Jónsson
 Jóhann Sigmarsson

Jóhann Ingólfsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir