Haförn þvælist með farfuglunum í Skagafirði
Farfuglarnir hafa verið að flykkjast til landsins seinustu daga og er orðið vorlegt um að lítast í Skagafirði. Á vef Náttúrustofu Norðurl. vestra segir að hópar af álftum, grágæsum, heiðargæsum og helsingjum sé orðin algeng sjón á túnum og ökrum bænda. Sést hefur til hafarnar á þvælingi víðsvegar í Skagafirði.
Þann 13. apríl fór starfsmaður náttúrustofunar í vettvangsferð um innanverðan Skagafjörð og Hjaltadal til að svipast um eftir fuglum. Álftir voru víða komnar á óðöl sín auk þess sem stokkendur, rauðhöfðar, skúfendur og toppendur eru farnar að flytja sig yfir á vötnin. Flórgoðar sáust jafnframt á einu vatninu. Hettumáfar og stormmáfar sáust víða á áreyrum og ökrum auk þess sem sílamáfar sáust á flugi. Þá er nokkuð síðan fýllinn settist upp. Heiðlóuhópur flögraði um Langholtið og tjaldapar spókaði sig um eyrar Héraðsvatna í Blönduhlíðinni.
Á sama tíma fóru fram talningar á helsingjum. Sáust yfir 5 þúsund fuglar í innanverðum Skagafirði og Hjaltadal. Þegar mest var vorið 2009 sáust hátt í 21 þúsund fuglar á sama svæði þann 25. apríl. Fuglunum á því eftir að fjölga ört næstu daga. Kemur náttúrustofan til með að fylgjast með fjölda helsingja í innanverðum Skagafirði reglulega yfir þann tíma sem þeir stoppa.
Þá hefur frést af haferni á flugi víðsvegar í Skagafirði bæði innanverðum sem og við sjóinn. Feykir frétti af fuglinum á Borgarsandi við Sauðárkrók í gær en sést hefur til hrafna þar sem þeir reyna að reka hann í burtu. Hafernir eru ekki algengir í Skagafirði en flækjast þó stöku sinnum og þá einkum geldfuglar. Fyrir margt löngu verpti örn í Þórðarhöfða sem líklega var komið fyrir kattarnef af mannavöldum en þeir voru ekki vinsælir hjá bændum á Íslandi sem reyndu að útrýma illfyglinu. Í dag er íslenski haförninn friðaður og þykir tignarlegur fugl enda oftast nefndur konungur fuglanna. Ef einhverjir hafa náð að mynda örninn væri gaman að fá þær til birtingar hér á Feyki.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.