Gylfi Ægis í fanta formi

Jóhanna og Gylfi

Annað kvöld verða haldnir tónleikar í Miðgarði þar sem Paparnir ásamt Gylfa Ægis og Bubba Mortens koma fram og á laugardagskvöldið munu Paparnir spila á fyrsta balli í Miðgarði eftir breytingar.

Gylfi Ægis sagði í samtali við Feyki vera spenntur fyrir því að spila fyrir Skagfirðinga og gaman að þetta skuli vera fyrsta ballið eftir breytingar. Tónleikarnir eru liður í hringferð þeirra félaga í tilefni af útkomu geisladisksins Lögin við sjávarsíðuna. –Við byrjuðum 29. sept og verðum til 24. okt, segir Gylfi. –Það er gaman að vera með Pöpunum og Bubbi er mjög skemmtilegur. Hann leynir á sér. Palli stjórnar þessu svo eins og lítill hershöfðingi og heldur pakkanum saman.

Það er nóg að gera hjá Gylfa fyrir utan að túra með Pöpunum því Áhöfnin á Halastjörnunni hefur ekki setið auðum höndum og spilar á Kringlukránni af og til. Þá hafa Gylfi og Jóhanna Magnúsdóttir verið að skemmta. –Við Jóhanna gerðum disk saman sem Hemmi Gunn kallar ástardúettinn, og svo gaf ég út Perlur Gylfa Ægis með orginal lögum þar sem helstu perlur landsins syngja lögin mín, segir Gylfi. Lög Gylfa hafa oft snúist um sjómennskuna enda fór hann ungur á sjóinn. –Ég strauk að heiman 15 ára og fór til Vestmannaeyjar en var sendur heim eftir mánuð, segir Gylfi og vill meina að lífernið á honum og félaga hans hafi ekki verið til fyrirmyndar. –Ég fór svo aftur til Eyja seinna og þeir tóku mér vel. Ég var alls 15 ár á sjó.

Mörg lögin hefur Gylfi samið um dagana sem hafa orðið vinsæl, en hvert skyldi vera uppáhalds lagið hans. –She loves you með Bítlunum , svarar Gylfi að bragði. Ég get ekki gert upp á milli laganna minna en Minning um mann er það lag sem oftast hefur verið gefið út. Fyrir þá sem hafa velt því fyrir sér um hvern lagið er, segir Gylfi það vera um Gölla Valda í Vestmannaeyjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir