Gúllas, grillaður silungur og folaldalundir
Erlingur Sverrisson og Margrét Jakobsdóttir á Hvammstanga eiga uppskriftir vikunnar að þessu sinni og bjóða upp á þrjá einfalda en bragðgóða rétti.
Gúllas
- 600 gr kjöt (nauta, hrossa, kálfa, lamba)
- 3 laukar
- 2 paprikur
- 1 dós sýrður rjómi
- vatn
- paprikuduft
- salt
- matarolía
Laukurinn saxaður smátt og látinn malla í olíu þar til hann er orðinn mjúkur. Paprikudufti stráð yfir laukinn. Kjötið smátt skorið og sett út í og brúnað. Pínu vatni hellt yfir. Látið malla í 30-40 mínútur við vægan hita. Bætið örlitlu vatni í öðru hvoru. Saltið. Því næst er sýrða rjómanum bætt út í og hrært vel. Að síðustu er paprikan látin út í. Borið fram með hrísgrjónum (auðvitað River segir húsbóndinn) og brauði ef vill.
Grillaður silungur (auðvitað úr Hópinu)
Byrjað er á að skafa roðið mjög vel á silungnum og skolað vel á eftir. Silungurinn flakaður og flökin pensluð vel með góðri grillolíu. Kryddað með sítrónupipar báðum megin. Báðar hliðar grillaðar í nokkrar mínútur (má ekki grilla of lengi því þá verður fiskurinn þurr).
Borið fram með kartöflum og salati. Athugið að kryddið situr vel í roðinu og þar með er það algjört sælgæti.
Folaldalundir
Folaldalundirnar skornar þvert í ca. tveggja til þriggja cm þykkar sneiðar. Steikt á pönnu í ca. 2 mínútur á hvorri hlið til að loka kjötinu (við ágætlega háan hita). Sett í ofnskúffu. Sveppir, laukur og paprika skorið niður og sett með kjötinu í skúffuna. Steikt í ofni við ca. 180 ° í 13-18 mínútur eftir stærð kjötbitanna. Borið fram með kartöflum, bernaisesósu og salati ef vill.
Verði ykkur að góðu!
(Áður birst í Feyki 10. tbl. 2010)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.